Norðmaðurinn Rune Jensen kjöldregur Gunnar Davíðsson og skorar á hann í sjónvarpskappræður í Noregi, þar sem báðir starfa.
Gunnar hélt því fram í viðtali við Fiskifréttir að sjókvíaeldi á laxi væri vistvæn framleiðsla. Sjókvíaeldisfyrirtækjum hefur verið bannað að nota þá fullyrðingu í löndum beggja vegna Atlantshafsins enda er hún alröng.
„Almenningur, fjölmiðlar og yfirvöld í Noregi eru að verða meðvituð um hina gífurlegu mengun sem stafar frá laxeldisstöðvum og sömuleiðis hið stjarnfræðilega umfang lobbýisma í laxeldi sem hefur verið drifinn áfram af takmarkalausum sjóðum í áratugi og tekist að fela hinar nöturlegu staðreyndir um iðnað þeirra fyrir öllum heiminum eftir svipaðri uppskrift og tóbaksiðnaðurinn beitti á sínum tíma,“ segir Rune. Laxeldi sé mesti mengunarvaldurinn við strendur Noregs.
„Vandanum með laxalús er annaðhvort mætt með því að setja fleiri tonn af eiturefnum í sjóinn eða með því að kvelja laxinn með því að bursta hann vélrænt eða sjóða í heitu vatni. Minntist einhver á dýravernd?“ segir Rune í samtali við Fiskifréttir en hann er formaður laxaverndunarsamtakanna Salmon Camera í Noregi.
…Að sögn Rune hefur laxveiði í Noregi dregist saman um 85 prósent síðan laxeldi hófst í stórum stíl. Áhrifin séu þó mun víðtækari en hvarf laxa, sjóbirtinga og sjóbleikju. Heilbrigður sjávarbotn við Noreg eigi að hýsa á bilinu 50 til 60 mismunandi lífverur. Við laxeldisstöðvar sé aðeins að finna um 3 til 4 tegundir sjávarorma.
Rune segir fullyrðingu Gunnars um áróður auðugra laxveiðimanna og landeigenda ótrúverðuga. Það sama gildi um fullyrðingar um jákvæða afstöðu almennings í Noregi til laxeldisiðnaðarins.
„Ég skora á Gunnar að endurtaka þessar fullyrðingar opinberlega í norskum fjölmiðlum og koma þar á eftir og mæta augliti til auglitis í kappræður í landsdekkandi sjónvarpsútsendingu þar sem hann getur kynnt „sannanir“ sínar sem yfirtrompa vísindalegar staðreyndir.“