Við mælum með lestri á þessari grein Rúnars Gunnarssonar sem birtist á Vísi. Rúnar skipar 3 sæti á lista Pírata í Norðausturkjördæmi.
„Laxafóður er blanda af grænmetispróteinum (70%) og fiskimjöli (30%) eins og sjá má hér. Það er því ljóst að það þarf að rækta mikið magn af t.d soya eða sólblómum eingöngu til að fullnægja þessari þörf fyrir grænmetisprótein – fyrir utan allt sem er ræktað til manneldis. Einnig þarf mikið magn af fiskimjöli og þar sem nýtingarhlutfall við bræðslu uppsjávarfisks er ekki nema 17-20% eftir tegundum þarf að veiða mikinn fisk til að framleiða það mjöl sem þarf.
Því leyfir maður sér að spyrja: Er fiskeldi virkilega eins umhverfisvænt og sum fullyrða? Gríðarlegt magn af úrgangi fellur til botns og mengar í kringum eldisstöðvarnar. Landsvæði undir ræktun þess próteins sem þarf í fiskeldið er í mörgum tilfellum fengið með skógarhöggi og fiskveiðar til mjölframleiðslu ganga nærri nytjastofnum, sem margir hverjir eiga undir högg að sækja. …
Píratar hafa sett sér stefnu í fiskeldismálum. Þar segir meðal annars: „Markmið okkar er að hagkvæmara verði að stunda fiskeldi á landi en í sjó. Við munum tryggja að löggjöf um fiskeldi á landi verði einföld og skilvirk. Ljóst er þó að afkoma fjölmargra Íslendinga byggir á því sjókvíeldi sem nú þegar hefur byggst upp við landið. Við hyggjumst ekki kollvarpa fyrir þeim rekstri sem nú þegar er kominn á laggirnar, en gerum kröfu um að fiskeldið fari fram í lokuðum kvíum.“