Til að koma í veg fyrir að þörungagróður og skeljar setjist utan á netapokarna í sjókvíunum er algengt í þessum iðnaði að nota efni sem inniheldur kopar til að húða netin. Kopar er hins vegar málmur sem er baneitraður fyrir fjölda lífvera og umhverfið. Það sem er allra verst er að kopar leysist ekki upp og hverfur heldur hleðst upp með sífellt vaxandi magni með tímanum í setlögum og öðru í umhverfi skókvíaeldissvæðanna.
Einmitt af þeim sökum er notkun netapoka af þessari gerð gjarnan bönnuð. Þetta á til dæmis við í starfsleyfi Arctic Sea Farm vegna sjókvíaeldis í Dýrafirði fyrir vestan. Engu að síður hefur fyrirtækið kosið að brjóta þessi skilyrði.
Í nýjustu eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar kemur þetta fram: „Rekstraraðil hefur ekki heimild til notkunar eldisnóta sem eru litaðar með efnum sem innihalda koparoxíð. Kvíar með lituðum nótum hafa verið í notkun á eldisstaðnum við Haukadalsbót síðan seiði voru sett út í maí síðastliðnum.“
Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Sea Farm, er tíður gestur í athugasemdakerfinu hérna hjá okkur. Við biðjum hann að upplýsa okkur og lesendur um hver staðan er á þessum sjókvíum með netapokunum sem óheimilt er að nota. Eru þær enn í sjó í Dýrafirði?
Við bendum þeim sem vilja kynna sér málið betur á að lesa þessa grein frá norsku Hafrannsóknastofnuninni. Þar kemur meðal annars fram að ef fyrirtæki með starfsemin á landi verða uppvís að því að losa umfram tvö kíló af kopar út í umhverfið á ári, þá er þeim lokað af yfirvöldum. Sjókvíaeldið losar 1.700 kíló á ári í sjó við Noreg.