Rétt hjá formanni neytendasamtakanna. Sjókvíaeldisfyrirtækin kom fram undir fölsku flaggi þegar þau merkja umbúðir utanum eldislaxinn með orðinu „vistvænt“. Það er ekkert vistvænt við þennan mengandi og skaðlega iðnað.
Það er hneyksli að neytendur geti ekki séð á umbúðum eldislax hvort hann komi úr sjókvíaeldi eða landeldi. Mikill munur er á milli þessara framleiðsluaðferða.
Og neytendur vita ekki heldur hvort sá eldislax sem er nú til sölu í verslunum og á veitingastöðum hafi verið sýktur af veirunni sem veldur hinum banvæna fisksjúkdóm blóðþorra. Þetta er auðvitað algjörlega óásættanlegt.
Breki Karlsson segir í viðtali við Fréttablaðið:
„Auðvitað eiga allir neytendur heimtingu á að vita hvort þeir eru að borða sýktan lax eða ekki, ella liggur allur lax undir grun,“ segir Breki og minnir á að rétturinn til upplýsingar sé meðal meginréttinda neytenda, sem John F. Kennedy lagði grunninn að í ræðu árið 1953.
„Krafan um matvælaöryggi er líka ein af grunnkröfum neytendaréttar,“ heldur Breki áfram, en enginn vafi eigi að leika á um skaðsemi matvæla. „Við höfum líka kvartað til Neytendastofu vegna sumra þessara sjókvíaeldisfyrirtækja sem skreyta sig með orðunum „vistvænt sjóeldi“ en það er akkúrat ekkert vistvænt við það,“ segir Breki og telur fyrirtækin „skreyta sig með grænþvotti“.
Krafa Neytendasamtakanna í þessum efnum er í anda kæru sem Matvælastofnun barst í síðasta mánuði frá Íslenska náttúruverndarsjóðnum, en forkólfar hans krefjast þess að stofnunin upplýsi í svokölluðu „Mælaborði fiskeldis“ um afföll eldisfiska í sjókvíum. Að mati þeirra er það skylda stjórnvalda að veita almenningi aðgang að gögnum um afdrif þessa matfisks.