Þetta eru gríðarlega góðar fréttir. Mjög sérstakt er þó að sjá formann atvinnuveganefndar nefna sem ástæður ágreining milli stjórnarflokkanna um „skattheimtu og gjaldtöku“. Í þessu felst ákveðin vísbending um hvað er framundan.

Um þess þætti frumvarpsins, „skattheimtu og gjaldtöku“, hefur svo til engin umræða verið í samanburði við harða gagnrýni náttúruverndarsamtaka á fullkominn skort á vernd umhverfis og lífríkis í frumvarpinu og algjört skeytingarleysi gagnvart velferð eldisdýranna.

Hvað er formaður nefndarinnar þá að tala um? Líklega er það pressa SFS á stjórnarflokkana um að borga enn þá minna en gert er ráð fyrir af afnotum af auðlindum þjóðarinnar í fjörðum landsins.

Frekjan og yfirgangurinn af hálfu SFS hefur verið með ólíkindum í þessu máli og það er algjörlega öruggt að samtökin eru ekki hætt.

Það var ekki bara náttúruverndin sem var ónýt í frumvarpinu. Kvótavæðingin (framsal og veðsetning á leyfum fyrir sjókvíaeldi á laxi) sem þar var boðuð, hefði fært aðildarfélögum SFS enn meiri verðmæti að gjöf en hefur nú þegar verið gert.

Ef þetta frumvarp hefði náð fram að ganga hefði verið mjög snúið að vinda ofan af þessum skaðlega iðnaði án hárra skaðabóta úr sjóðum landsmanna.

Það var staðan sem SFS reyndi að skapa en sem betur fer tókst að afstýra því. Um stund að minnsta kosti.

SFS mun nú fara í breiðsíðu áróðursherferð til viðbótar því sem samtökin hafa verið að gera bak við tjöldin og með rándýrum glansmyndar sjónvarpsauglýsingunum í vor. Til dæmis er Kaldvík (Laxar og Fiskeldi Austfjarða) að fara að setja í loftið mikla ímyndarauglýsingaherferð á næstu dögum.

Það er harður slagur áfram framundan. Í dag getum við þó fagnað áfangasigri fyrir hönd þjóðarinnar.

Í umfjöllun mbl.is segir:

Frum­varpi Bjarkeyj­ar Ol­sen Gunn­ar­dótt­ur mat­vælaráðherra um lagar­eldi verður frestað fram á haust vegna þess að rík­is­stjórn­in nær ekki sam­an um málið í at­vinnu­vega­nefnd. Upp­haf­lega stóð til að klára málið fyr­ir þinglok.

Þetta staðfest­ir Þór­ar­inn Ingi Pét­urs­son, formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar, í sam­tali við mbl.is.

„Í gær þá sagði ég að við verðum að fresta þessu fram á næsta þing,“ …

Hann seg­ir að þó frum­varpið sé gott í grunn­inn þá sé það gríðarlega stórt, 137. grein­ar, og ekki auðvelt að ná sátt um þær all­ar með þann tíma sem er fyr­ir hendi.

„Ég get tínt til al­veg hell­ing af því en fyrst og fremst er þetta það sem kem­ur að skatt­heimtu og gjald­heimtu og hvernig við eig­um að haga því. Þar þurf­um við bara meiri tíma til að geta farið ofan í það, til að ná utan um það al­menni­lega,“ seg­ir Þór­ar­inn Ingi.