„Við höfum ekki efni á því að vinna gegn náttúrunni. Á meðan flestir átta sig á mikilvægi þess að fjárfesta i endurnýjanlegum og sjálfbærum greinum getum við ekki setið hjá og ýtt undir iðnað sem mun skilja náttúruna eftir í verra ástandi fyrir komandi kynslóðir. Markmið lífeyrissjóðanna er fyrst og fremst að ávaxta lífeyri landsmanna. Þeir hafa nær allir sett sér þá samfélagslegu stefnu að gera það með fjárfestingum sem stuðla að sjálfbærri og vistvænni framtíð.

Sú stefna er vel við hæfi í þróuðum ríkjum eins og Íslandi. Þess vegna vekja fjárfestingar Gildis og Stefnis í mengandi iðnaði mikla furðu og eru vonandi ekki merki um stefnubreytingu í samfélagslegri ábyrgð,“ segir meðal annars í góðri grein Elvars Arnar Friðrikssonar í Fréttablaðinu í dag.

Í greininni segir Elvar ennfremur:

„Þeir sem hafa gagnrýnt sjókvíaeldi á liðnum árum hafa þurft að sitja undir ásökunum um að vera á móti atvinnuuppbyggingu í dreifðum byggðum. Nú þegar fjárfesting Gildis og Stefnis í mengandi iðnaði er gagnrýnd er hætt við því að þeir sem hana leggja fram verði sakaðir um að vera á móti ávöxtun lífeyrissjóðsins og vilji þannig skerða lífeyrisréttindi. Þau viðbrögð stórfyrirtækjanna eru fyrirsjáanleg en alls ekki rétt.

Sem fyrr segir hafa bæði Gildi og Stefnir lagt áherslu á ábyrgar fjárfestingar sem taka mið af umhverfissjónarmiðum þó vikið sé frá þeim sjónarmiðum nú. Það að nýta lífeyri landsmanna og kasta frá sér samfélagslegri ábyrgð til að fjárfesta í mengandi iðnaði sem hefur skaðleg áhrif á lífríki fjarða og vatna setur afar slæmt fordæmi.“