Sjókvíaeldisiðnaðurinn er skelfileg ógn við umhverfið og lífríkið. Það er grátlegt að horfa upp á hann stækka við Ísland.
Fjallað er um málið í Fréttablaðinu:
„Matvælastofnun sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem greint var frá því að Arnarlax hefði tilkynnt stofnuninni síðastliðinn föstudag um gat á nótarpoka einnar sjókvíar við Laugardal í Tálknafirði. Gatið uppgötvaðist við þrif en búið er að gera við það. Ljóst er að það var ekki til staðar á pokanum þann 6. ágúst en þá átti sér stað köfunareftirlit á svæðinu. …
Arnarlax lagði út net þegar gatið uppgötvaðist í samráði við Fiskistofu til að kanna hvort slysaslepping hefði átt sér stað. Þeirra var svo vitjað á laugardag og sunnudag en enginn lax fannst í þeim og hefur veiðiaðgerðunum nú verið hætt. Jón segir þetta engan veginn nóg til að fullvissa sig um að engir laxar hafi sloppið úr kvínni.“
Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, segir að þessar aðgerðir Arnarlax til að bregðast við slysinu séu tilgangslitlar:
„Reynslan er í rauninni sú að svona er bara tilgangslaust, að reyna einhverjar veiðar í kringum þetta,“ útskýrir hann. Það hafi fram að þessu aldrei skilað neinu. „Og almennt virðist nú skorta upplýsingar um það hvað sleppa raunverulega margir fiskar í svona slysum. Eins og til dæmis var á regnboganum hér fyrir nokkrum árum. Hvað sluppu margir þá? Veit það einhver?“ heldur hann áfram og á þá við slysasleppingar sem urðu í fiskeldi árið 2016. Þá fór regnbogi að veiðast í ám á Vestfjörðum.“