Það er súrsæt tilfinning að lesa skýrslu ríkisendurskoðunar um ástandið í opinberri umgjörð sjókvíaeldis hér við land. Flest sem kemur þar fram höfum við bent á ítrekað í umsögnum okkar til Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar, matvælaráðuneytisins og til Alþingis og það er ánægjulegt að sjá þessi atriði staðfest með svona skýrum og afgerandi hætti af hálfu ríkisendurskoðunar.

Hitt er sorglegt, fyrir okkur sem samfélag, að hið opinbera hafi staðið svona ömurlega illa að málum. Ekki hefur vantað ábendingarnar til stofnananna og þingsins. Þar var fólk á fleti sem annað hvort kaus að aðhafast ekki eða hafði ekki þrek til þess.

Aðgerðarleysið hefur komið niður á umhverfi og lífríki Íslands, en líka með beinum og skaðlegum hætti á ríkissjóði.

Samkvæmt lögum um fiskeldi, sem samþykkt voru 2019, eiga ný lög að taka gildi eigi síðar en 1. maí 2024. Nú þarf Alþingi að slá í klárinn og uppfæra lögin sem allra fyrst.

Þetta fúsk, sem ríkisendurskoðun hefur nú staðfest, er á ábyrgð þeirra ríkisstjórna sem hafa stýrt Íslandi undanfarinn áratug.

Í frétt RÚV kemur meðal annars fram:

Skýrsla ríkisendurskoðunar sem kallað var eftir af Matvælaráðuneyti tæpir á fjölmörgu en hún telur meira en hundrað og fjörutíu blaðsíður. Hún var kynnt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun. Skýrslan málar upp svarta mynd af stöðu stjórnsýslu og eftirlits í kringum sjókvíaeldi. Meðal annars að breytingum á lögum um fiskeldi sem var ætlað að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar hafi ekki verið fylgt eftir með því að styrkja stjórnsýslu og eftirlit stofnana sem mæði mest á.

Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum hafi þá fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda. Eldissvæðum hafi verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds og jafnvel dæmi um að eldi skarist á við siglingaleiðir, helgunarsvæði fjarskipta- og raforkustrengja og við hvíta ljósgeira siglingavita. …

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að settar verði skýrar reglur um útfærslu og fyrirkomulag á skiptingu eldissvæða og úthlutun heimilda til eldis í sjó. Hafrannsóknastofnun hafi bent á að stofnunin sé í raun vanbúin til þeirrar stjórnsýslulegu framkvæmdar sem krafist er við skilgreiningu eldissvæða.

Efla þarf eftirlit og beita þvingunarúrræðum með markvissum hætti að mati Ríkisendurskoðunar, en í skýrslunni segir að MAST hafi ekki talið þörf á því þrátt fyrir að alvarleg og jafnvel ítrekuð frávik hafi verið skráð við eftirlit.“