Skipulagsstofnun hefur gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum 10.000 tonna eldis á laxi í Seyðisfirði á vegum Fiskeldis Austfjarða, og er það vægast sagt neikvætt. Það orð kemur einmitt oftast allra orða fyrir í álitinu. Hér eru nokkrir kaflar:

„Skipulagsstofnun telur að sjókvíaeldi á 10.000 tonnum af frjóum laxi í Seyðisfirði geti haft verulega neikvæð áhrif á villta laxastofna m.t.t. erfðablöndunar, enda samræmist það ekki núgildandi áhættumati erfðablöndunar.“

„Að mati Skipulagsstofnunar eru áhrif á samfélag óvissu háð, en geta orðið talsvert eða verulega neikvæð ef ekki næst sátt um framkvæmdina í nærsamfélaginu. Byggir sú afstaða m.a. á fjölda athugasemda við frummatsskýrslu Fiskeldis Austfjarða og undirskriftalista íbúa gegn fiskeldisáformum í Seyðisfirði. Fá ef nokkur fordæmi eru fyrir viðlíka andstöðu heimamanna við sjókvíaeldi.“

„Skipulagsstofnun telur að sjónræn áhrif verði talvert neikvæð en afturkræf verði eldi hætt. Stofnunin telur einnig að fiskeldið geti haft neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna af landslagi svæðisins og náttúrulegu yfirbragði þess. Fiskeldið geti því haft neikvæð áhrif á ímynd Seyðisfjarðar, sem ekki er sjálfgefið að gangi strax til baka ef eldi verður hætt. Áhrif á ferðaþjónustu geta orðið talsvert neikvæð en eldissvæði koma til með að liggja í mikilli nálægð við siglingaleið Norrænu og farþegaskipa.“

„Skipulagsstofnun telur að áhrif vegna uppsöfnunar lífræns úrgangs á sjávarbotni verði talsvert neikvæð á takmörkuðu svæði undir og nærri eldisstað.“

Áform Fiskeldis Austfjarða um sjókvíaeldi í Seyðisfirði hljóta að vera úr sögunni eftir þessa afreiðslu. Annað væri hneyksli.