Að mati Hafrannsóknastofnunar er áhyggjuefni og afturför miðað við stefnu annarra landa að verið sé að hefja notkun á ásætuvörnum sem innihalda kopar í sjókvíaeldi hér á landi enda er efnið þungmálmur og baneitrað ýmsum lífverum sjávar. Þetta kemur og meira kemur fram í vandaðri fréttaskýringu sem var að birtast í Kjarnanum.
Skipulagsstofnun hefur nú ákveðið að sjókvíaeldisfyrirtækið Arctic Sea Farm þarf að láta meta umhverfisáhrif áætlana um að nota kopar í ásætuvörnum á eldissvæðum í Arnarfirði.
Þetta er athyglisvert því Umhverfisstofnun, Ísafjarðarbær og Vesturbyggð töldu ekki þörf á slíku mati sem er með miklum ólíkindum.
Við hjá IWF gerðum harðorða athugasemd við þessi áform Arctic Sea Farm, rétt einsog Hafrannsóknastofnun. Við fögnum því að Skipulagsstofnun hefur nú gripið í taumana.
Í umfjöllun Kjarnans segir:
„Skipulagsstofnun hefur ákveðið að laxeldisfyrirtækið Arctic Sea Farm, þurfi að láta meta umhverfisáhrif áforma sinna um að nota kopar í svokölluðum ásætuvörnum á eldissvæðum í Arnarfirði.
Umhverfisstofnun, Ísafjarðarbær og Vesturbyggð töldu ekki þörf á slíku mati en Hafrannsóknarstofnun mælti eindregið með því enda kopar eitraður málmur sem safnast upp í umhverfinu og getur haft skaðleg áhrif á lífríki. Stofnunin benti m.a. á umsögn sinni um málið að erlendis hefur notkun ásætuvarna með koparoxíði víða verið hætt. Í umsögninni er ennfremur rifjað upp að Arctic Sea Farm hafi um tíma notað slíkar varnir hér á landi í leyfisleysi.
Ásætur eru þær lífverur kallaðar sem safnast upp á hlutum í hafinu, s.s. á eldiskvíum. Um er m.a. að ræða ýmsa þörunga og hryggleysingja. Kopar drepur dýr og þörunga og virkar þess vegna sem ásætuvörn. Hafró segir að allt bendi til þess að kopar sé skaðlegur umhverfinu og segir að um það hafi verið fjallað í mörgum rannsóknum. Ásætuvarnir hafa ekki aðeins áhrif á þær lífverur sem stefnt er að því að verjast. Þannig hafi rannsóknir sýnt að á svæðum í kringum koparkvíar hafa lífverur, til dæmis humrar og ígulker, safnað þungmálminum í vefi sína.“