Fréttastofa RÚV segir nú frá því að tveir af þingmönnum Framsóknarfloksins, Halla Signý Kristjánsdóttir og Iða Marsibil Jónsdóttir, hafi nýtt ræður sínar í störfum þingsins til að lýsa vonbrigðum með að frumvarp um lagareldi yrði ekki samþykkt á þessu þingi.
Báðar hafa lengi komið grímulaust fram sem fulltrúar sjókvíaeldisfyrirtækjanna á Alþingi en í fréttina vantar að Iða Marsibil var um árabil einn af lykilmönnum Arnarlax.
Sjókvíaeldisfyrirtækin og SFS eru brjáluð yfir því að frumvarpið fór ekki í gegn enda hefði það fært þeim gríðarleg verðmæti til viðbótar sem nú þegar er búið að gefa þeim.
Þær stöllur láta einsog núgildandi löggjöf sé handónýt. Tók þó þeirra flokkur þátt í að setja þau lög með samstarfsflokkum sínum í ríkisstjórnarsamstarfinu. Góðu heilli er fólk innan raða stjórnarflokkanna búið að átta sig á að ekki má dýpka mistökin sem gerð voru við lagasetninguna 2019, einsog stefndi í með lagareldisfrumvarpinu.
Gjafakvótakerfið hefði verið fest í sessi með nýjum heimildum um framsal og veðsetningu framleiðsluleyfi. Þetta má aldrei verða.
Í frétt RÚV er fjallað um ræður þeirra Höllu og Iðu á Alþingi:
… „Fyrst vil ég nefna samfélögin sem búa við sjókvíaeldið. Fyrir þessi samfélög skiptir miklu máli að lagareldið sé rekið á ábyrgan hátt þar sem það hefur veruleg áhrif á lífsviðurværi þeirra,“ sagði Halla Signý. Frumvarpið sé til þess gert að setja sterka stefnu um framtíðina.
„Það er algjör firra að hafa ekki kjark til að klára þessa mikilvægu stefnu um lagareldi og við verðum að taka upp þráðinn í haust og klára þetta. Annars er allt tal um ábyrga uppbyggingu, eftirlit og sjálfbærni tómið eitt og þýðir ekki að flagga því framan í mig að minnsta kosti.“
Iða Marsibil sagðist taka undir með Höllu og spurði hvort það væri eitthvað grín að lagareldisfrumvarpið færi ekki í gegn á þessu þingi. „Í stuttu máli sagt, virðulegur forseti, skiptir þessi atvinnuvegur öllu máli fyrir þorpin fyrir vestan núorðið,“ sagði hún.
Hún sat sjálf í bæjarstjórn í Vesturbyggð á síðasta kjörtímabili. „Þá og allar götur síðan hafa bæjaryfirvöld þar og atvinnugreinin sjálf kallað eftir skýrari lagaramma um þessa atvinnugrein.“ Hún sagði engan vafa leika á því að starfsgreinin væri umdeild „en hún hefur fest sig í sessi og því brýnt að horfa fram á við og vil ég nota tækifærið hér til þess að brýna þingmenn til að klára málið ákveðið og með sóma á haustþingi“.
Í þessari frétt Vísis frá 2021 eru hagsmunatengsl Iðu Marsibil við sjókvíaeldið rakin:
Iða Marsibil Jónsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Lax-inn fræðslumiðstöðvar fiskeldis í Reykjavík. Iða var áður ein af lykilmönnum Arnarlax, samkvæmt tilkynningu.
Iða er viðskiptafræðingur og stundar MBA nám við Háskólann í Reykjavík. Hún er Bílddælingur og fædd og uppalin fyrir vestan. Þá er hún þriggja bara móðir og í áðurnefndri tilkynningu segir að hún hafi brennandi áhuga á og reynsu í fiskeldi.
Hún starfaði áður hjá Arnarlax og tók þátt í uppbyggingu félagsins en þar starfaði hún við mannauðsmál, fjármál og var skrifstofustjóri. …
Í tilkynningu frá Lax-Inn segir að tilgangur fræðslumiðstöðvarinnar sé að opna glugga að starfsemi fiskeldis hér á landi. Að uppfræða og vekja áhuga almennings á sjálfbærri matvælaframleiðslu atvinnugreinarinnar.