„Okkur finnst þetta frumvarp vera fullkomin svik við það sem var kynnt síðastliðið haust um áform um sjókvíaeldi og breytt lagaumhverfi þar.

Með svona vini þarf íslensk náttúra ekki óvini. Þarna skortir algjörlega lágmarksviðurlög við þeim skaða sem sjókvíaeldi á laxi veldur umhverfinu og lífríkinu,“ segir Jón Kaldal talsmaður IWF í viðtali við RÚV um frumvarp matvælaráðherra.

… Jón segir fullyrðingar um aukna dýravelferð í frumvarpinu vera orðin tóm.

„Það á leyfa fyrirtækjunum að halda áfram að láta gríðarlega mikið af fiski drepast í sjókvíunum. Þetta gengur ekki við matvælaframleiðslu,. Þannig að þetta er bara klár leikaraskapur að vera með svona ákvæði inni í lögunum og kalla þetta einhverja bætingu á dýravelferðarhluta þessa iðnaðar,“ segir Jón.

Jón telur einnig gagnrýnisvert að rekstrarleyfi laxeldisfyrirtækja í íslenskum fjörðum verði ótímabundið samkvæmt frumvarpinu og ekki lengur bundið við sextán ár eins og stendur í núgildandi lögum.

„Þetta eru afleitar tillögur því samhliða þessu að leyfin eru gerð ótímabundin eða hugmyndin er að gera þau ótímabundin er búið að draga tennurnar úr því sem var kynnt fyrst í haust um möguleika hins opinbera til þess að svipta þessi fyrirtæki leyfunum. Vegna meðferðar á dýrum, vegna stroks, vegna mikillar mengunar,“ segir Jón.