Hughreystandi er að sjá að íslenskir fjölmiðlar eru á tánum þegar kemur að stöðu sjókvíaeldis í Noregi. Þar í landi eru eigendur sjókvíaeldisfyrirtækjanna sem eru starfrækt á Íslandi og sömu vinnubrögð og tækni notuð.
Í frétt Fréttablaðsins er sagt frá því sem við bentum á fyrr í vikunni að ástandið á þessu ári hefur ekki verið verra í norsku sjókvíaeldi, þegar horft er til eldisfisks sem sloppið hefur úr kvíum, síðan 2011. Staðfest er að yfir 300 þúsund laxar hafa slopppið, samkvæmt opinberri skráningu. Vitað er að þær tölur eru alltaf lægri en raunveruleikinn.
Endanlegur opinber fjöldi eldislaxa sem sluppu á þessu ári mun ekki koma fram fyrr en slátrað hefur verið úr kvíunum.
„Haft er eftir Øyvind Lie, framkvæmdastjóra strand- og sjávarútvegsdeildar fiskistofu Noregs, að eldislaxinn sleppi helst í tengslum við aðgerðir sem farið sé í til að berjast gegn lús og öðrum sjúkdómum. Í þremur af hverjum fjórum tilfellum sleppi lax þegar gat komi á kvíarnar.
Øyvind Lie segir þó að aðgerðir til að fyrirbyggja slík óhöpp hafi skilað árangri og stórslys þar sem heilu stöðvarnar bresti séu úr sögunni.
„Það er útópía að trúa að enginn eldislax sleppi í framtíðinni. Aðalmarkmiðið er að blöndun eldislaxa og villtra laxa verði stöðugt minni,“ hefur Dagens Næringsliv eftir Lie.
Tarald Sivertsen, sem fer fyrir nefnd fiskeldissamtakanna Sjømat Norge um sleppilaxa, segir við Dagens Næringsliv að áðurnefnt bakslag varðandi sloppna eldislaxa sé auðvitað afar óheppilegt. Mikil áhersla sé lögð á að allir í geiranum viti hversu illa það geti skaðað alla greinina séu hlutirnir ekki í lagi.
„En það er innan seilingar að fá svo lágar sleppitölur að þær hafi ekki áhrif á villta laxinn,“ fullyrðir Sievertsen við Dagens Næringsliv.“