Á fyrstu þremur mánuðum ársins hafa sjókvíaeldisfyrirtækin nú látið um 1,3 milljónir eldislaxa drepast í sjókvíunum hjá sér. Það er á við rúmlega sextánfaldan fjölda villta laxastofnsins.
Ef frumvarp VG verður að lögum munu fyrirtækin geta komist upp með það árum saman að fara svona með eldisdýrin án þess að missa leyfin.
Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.
Heimildin greinir frá:
Heildartölurnar um laxadauðann koma fram í svörum frá Matvælastofnun (MAST) í tölvupósti en stofnunin má ekki greina frá því hversu mikill laxadauði var hjá einstaka fyrirtækjum. Upplýsingar Heimildarinnar herma hins vegar að laxadauðinn hafi verið þetta mikill hjá Arnarlaxi.
Í svarinu frá MAST segir um laxadauðann að rekja megi hann til meðal annars vetrarsára. „Aðalástæður þessara affalla eru Moritella viscosa, parvicapsulosis og Tenacibaculum.“
Moritella viscosa er bakterían sem veldur vetrarsárum en þau eru sérlega mikill skaðvaldur í íslensku laxeldi vegna kuldans hér við land. Parvicapsulosis er heiti á fiskisjúkdómi sem sníkjudýrið Parvicapsula pseudobranchicola veldur í fiskum en það fannst fyrst í sjókvíum hér við land árið 2019. Tenacibaculum er baktería sem veldur sárum á uggum og sporði fiska og dregur þá til dauða.
…
Eitt af því sem er áhugavert við þessar tölur um dauða hjá sjókvíaeldiskvíunum á íslandi er að þó þær séu háar, og þó að ástæðurnar fyrir þeim séu bakteríur sem koma upp í eldinu, þá eru þær ekki óvanalega háar.
Til að mynda drápust rúmlega 470 þúsund eldislaxar í sjókvíaeldinu hér á landi í mars árið 2022 en þá voru 15 milljónir fiska úti í sjókvíum hér við land. Því var að um ræða rúmlega 3,1 prósent eldislaxa sem drapst þann mánuðinn eða hærra hlutfall en í ár.
Til samanburðar drápust 219 þúsund eldislaxar í sjókvíaeldinu við Ísland í mars í fyrra. Laxadauðinn í mars í ár var því til samanburðar ríflega tvöfalt hærri en í fyrra en aðeins minni en árið 2022.