Hugmyndin um að flytja eldislax til Kína frá Íslandi er ótrúleg tímaskekkja. Skoðum aðeins hvað felst í því ferli. Fóðrið sem fiskurinn er alinn á í sjókvíunum er flutt inn til landsins. Stór hluti af því eru sojabaunir sem koma frá Suður-Ameríku. Fiskurinn er alinn á þessu fóðri í tvö ár í sjókvíunum áður en honum er slátrað og svo flogið með hann til Kína. Hugsið ykkur vegalengdirnar að baki þessu ferli.
Hvað verður svo eftir á Íslandi? Fyrst og fremst mengunin sem streymir beint í hafið og myndar margra metra drullulag á botni fjarðannna okkar.
Við þetta bætist svo sá ósómi að til þess að framleiða eina máltíð fyrir manneskju af eldislaxi þarf ígildi próteina sem myndu duga henni í þrjár máltíðir.
Eitt stærsta vandamál heimsins er ofneysla dýraafurða. Langstærsti hluti ræktaðs lands er notaður til þess að búa til dýrafóður í verksmiðjubúskap, í stað þess að nýta afurðirnar sem fæðu fyrir mannkynið og draga þannig úr framleiðslu dýrapróteina. Afleiðingarnar eru gróðureyðing sem hraðar loftslagsbreytingum og eyðileggur heimkynni fjölmargra villtra dýrategunda.
Allt er þetta þekkt, engu að síður virðist fjölmargir vera tilbúnir að loka augunum fyrir þessum straðreyndum. Það er sorgleg staða.