Miklar líkur eru á að alvarlegt mengunarslys hafi orðið þegar stór fóðurprammi sjókvíaeldisfyrirtækisins Laxa sökk í Reyðarfirði í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu voru um 10.000 lítrar af dísilolíu í tönkum prammans. Enn hefur ekki verið upplýst um hversu mikið af fóðri var um borð en burðargeta prammans mun vera um 400 tonn.

Þetta slys er áminning um að sjókvíaeldi er iðnaðarstarfsemi sem fylgir margvísleg mengunarhætta í fjörðum landsins.

Skv frétt RÚV:

„Fóðurpramminn Muninn, sem er í eigu Laxa fiskeldis, sökk á Reyðarfirði á fjórða tímanum í nótt. Enginn var um borð í prammanum og ekki er talið að öðrum sæfarendum stafi hætta af honum þar sem hann liggur á hafsbotni á um 40 metra dýpi á móts við vitann Grímu á Berunesi, ekki langt frá landi. Varðskipið Þór er á vettvangi.

Í tilkynningu frá Löxum fiskeldi segir að talsvert af sjó hafi komist í prammann í vonskuveðri í gærkvöldi og hann þá farið að halla töluvert. Hvorki eldisfiskum né kvíum hafi þó stafað hætta af og engin svartolía verið um borð, en um 10.000 lítrar af dísilolíu verið í tönkum skipsins. Varðskipið Þór var kallað til aðstoðar við björgunar- og mengunarvarnaraðgerðir og er það enn á slysstað.“