Svona er ástandið í Noregi þar sem meintir ,,bestu staðlar“ eru í löggjöf um sjókvíaeldi.
Eldislax sleppur alltaf úr netapokunum. Spurning er ekki hvort heldur hvenær.
Einsog svo oft áður hefur helsjúkur lax sloppið úr kvíunum og dreifir sjúkdómum um lífríkið utan þeirra.
Hér á landi er ráðafólk að reyna að koma í lög svokölluðum ,,smitvarnasvæðum“ þar sem ekki fleiri en eitt sjókvíaeldisfyrirtæki fá að vera með starfsemi.
Ekki hefur verið útskýrt hvernig á að stýra umferð villtra laxastofna landsins um þessi smitvarnahólf né halda sýktum seppilöxum innan þeirra.
Í frétt Morgunblaðsins segir m.a.:
Tveir alvarlegir sjúkdómar hafa verið staðfestir meðal laxfiska í sjókvíum á eldissvæði Lerøy Seafood Group í Reitholmen í Noregi þar sem fjórtán þúsund stórir laxar sluppu.
Gat uppgötvaðist á sjókví dótturfélagsins Lerøy Midt sunnudagskvöld, en í ljós hefur komið í kjölfarið að lax á þessu svæði hafi bæði verið smitaður af nýrnasjúkdómnum BKD (e. Bacterial Kidney Disease) og brissjúkdómnum SPDV (e. Salmon pancreas disease virus). …
Haft er eftir Are Nylund, prófessor í fiskisjúkdómum við Háskólann í Bergen, að um er að ræða alvarlega sjúkdóma sérstaklega í tilfelli BKD.
„Þetta er baktería sem við viljum helst ekki hafa í Noregi,“ segir hann og bendir á að mikilvægir villtir laxastofnar í Þrændalögum sækja í árnar Orkla, Gaula og Namsen sem eru ekki langt frá eldissvæðinu.
Laxinn sem slapp úr kvíunum var að meðalatali rúmlega sjö kíló og vegna stærðarinnar reiknar Nylund með því að laxinn mun sækja í ár, sem hann segir auka smithættu.
„Við vitum að BKD getur aukið dauðatíðni meðal seiða, þannig að þetta er alvarlegt. Öll tilvik þar sem lax sleppur eru alvarleg, en þetta er sérstaklega alvarlegt með tilliti til þess að hann er smitaður með sjúkdómi sem getur smitað seiði. Við viljum hvorki sjá BKD eða SPDV meðal villtra fiska,“ segir Nylund.