Matvælaráðherra birtir í dag (25.05.) grein á Vísi þar sem hún kvartar undan ábendingum um skynsemi þess að fela fyrrum starfsfólki Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), nú starfsfólki ráðuneytisins, að semja frumvarp um lagareldi.
Staðreyndin er þó sú að í stað þess að vinda ofan þeim vísi að nýju gjafakvótakerfi, sem er að finna í núverandi lögum um fiskeldi, er skrefið tekið alla leið í frumvarpi um lagareldi sem þrír matvælaráðherrar VG hafa nú komið að: Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Auðvitað er pólitíska ábyrgðin þeirra en hvernig það gerðist að málið er komið í þennan farveg er rannsóknarefni.
Sú umræða er ekki ný hversu óheppileg það er að fólk fari úr starfi hjá sérhagsmunagæslusamtökum í vinnu fyrir opinberar stofnanir sem eiga að gæta hagsmuna almennings gagnvart sömu samtökum.
Staðreyndin er sú að í hverri umferð við smíði þessa frumvarps fjölgaði fingraförum SFS á því. Á sama tíma var ekkert tillit tekið til mikilvægra ábendinga um vernd umhverfis, lífríkis og velferð eldisdýranna.
SFS hefur tamið sér, og orðið vel ágengt, að beita miklum yfirgangi gagnvart stjórnvöldum og fulltrúum þeirra.
Furðulegt er að sjá fulltrúa stjórnvalda, embættis- og stjórnmálamenn, kikna í hnjánum frammi fyrir þessari frekju.
Starfsemi sókvíaeldisfyrirtækjanna er meira minna öll í klessu. Þau hafa misst frá sér fisk í stórum stíl, látið gríðarlegt magn af eldislöxum drepast í sjókvíunum ár eftir ár af völdum laxalúsar og vetrarsára, þau hafa þurft að farga fiski vegna blóðþorrasykingar, sem er versti sjúkdómur sem getur komið upp í sjókvíaeldi og þau hafa farið í mál við sveitarfélög vegna þess að þau tíma ekki að borga hafnargjöld eftir verðskrá.
Það er ekki erfitt að skilja af hverju um 70 prósent þjóðarinnar er andvíg þessari starfsemi. Hitt er snúnara, af hverju enn um 10 prósent styðja þetta?
Ef þetta frumvarp verður að lögum munu alþingismenn sem samþykkja það hafa reist sér minnisvarða til æviloka um þjónkun við sérhagsmuni fárra á kostnað almannahagsmuna og náttúru Íslands.
Því miður af nægu að taka um tengsl sjókvíaeldisfyrirtækjanna inn í ráðuneytin sem eiga að gæta almannahagsmuna.
2020: Skrifstofustjóri atvinnuvegaráðuneytisins seinkaði birtingu laga til að verja hagsmuni sjókvíaeldisfyrirtækjanna.
2023: Sami skrifstofustjóri var í margskonar óeðlilegum samskiptum við Arnarlax, sem svo réð hann sem „ráðgjafa.“
2023: Ríkisendurskoðun segir fulltrúa sjókvíaeldisfyrirtækjanna hafa setið báðum megin borðsins í samningum við ráðuneytið.
Ráðherra á að þekkja þessa sögu.
Heimildin fjallar um baráttu SFS fyrir því að innleitt verði nýtt gjafakvótakerfi fyrir laxeldið.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) gagnrýna fyrirhugaða breytingu á lagafrumvarpi matvælaráðherra um lagareldi sem felur í sér að tímabinda á rekstrarleyfin í greininni. Eins og frumvarpið var lagt fram af matvælaráðherra áttu rekstrarleyfin í laxeldinu að vera ótímabundin. Þetta hefur mætt harðri andstöðu og Bjarkey Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur dregið í land með þessa grein frumvarpsins. Í stað ótímabundinna rekstrarleyfa eiga þau að gilda í 16 ár. …
Í umsögn um frumvarpið sem SFS sendi til atvinnuveganefndar Alþingis þann 16. maí síðastliðinn kemur ítrekað fram að samtökin telja að of mikil og íþyngjandi afskipti ríkisvaldsins af laxeldisfyrirtækjunum geti farið gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar, líkt og rekstrarleyfin í laxeldinu séu í reynd eign eða ígildi eignar hjá sjókvíaeldisfyrirtækjunum.
Um þetta segir meðal annars í umsögn SFS að ef breyta eigi þessu atriði, sem hingað til hefur verið umdeildasta atriði frumvarpsins, þá þurfi að milda það á annan hátt samhliða: „Samtökin benda þó á að eftil álita kemur að breyta frumvarpinu á þá leið að rekstarleyfum verði áfram markaður tiltekinn gildistími verður ekki framhjá því litið að fjöldamörg íþyngjandi ákvæði frumvarpsins eru mótuð með tilliti til varanleika rekstrarleyfa. Samhliða slíkum breytingum verður því að fara fram endurskoðun til mildunar á samhangandi heimildum til eignaskerðinga, stjórnsýsluviðurlaga og áformum um aukna gjaldtöku.“
Á öðrum stað í umsögninni er gagnrýnt að ríkisvaldið eigi að geta tekið kvóta í af laxeldisfyrirtækjum ef brot eiga sér stað í starfsemi þeirra, eins og til dæmis slysasleppingar. Samtökin segja að slíkar aðgerðir ríkisins feli sér í skerðingu á eignarréttindum. „Slík ákvæði fela í sér skerðingu á eignarréttindum og atvinnuréttindum sem njóta verndar 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar.“
Í umsögn SFS kemur einnig ítrekað fram að ef rekstrarleyfin í laxeldinu verða tímabundin þá eigi það að leiða til minni gjaldtöku, sekta, eftirlits og í reynd minni afskipta ríkisvaldsins af rekstri laxeldisfyrirtækjanna þar sem verðmætin sem þau eru með í höndunum verði minni. Þau telja að bæði gjaldtaka og eftirlit með laxeldinu séu „óhófleg“.