Magnús Guðmundsson rýnir í meðfylgjandi grein sinni í álit Skipulagsstofnunar á áætlunum Fiskeldis Austfjarða í Seyðisfirði. Við höfum áður sagt frá áliti stofnunarinnar. Það er svo neikvætt gagnvart áformum um sjókvíaeldi í firðinum að með nokkrum ólíkindum verður að teljast að ekki sé búið að slaufa þeim nú þegar.

Við mælum með lestri á þessari vönduðu yfirferð Magnúsar. Við getum tekið undir kröftug lokaorðin hans:

„Það er skrýtið og jafnvel mikil spilling í gangi ef það fæst leyfi hjá ríkinu til að loka nánast siglingaleiðinni um hafnarsvæðið á Seyðisfirði. Að ekki sé talað um að setja fjarskiptasamband landsmanna við útlönd í stór hættu með því að þrengja helgunarsvæði Farice-1.

Fyrir utan þetta allt liggur líka fyrir að burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnunar fyrir laxeldið fór aldrei í umhverfismat eins og lög gera ráð fyrir. Þar voru íbúar sviftir rétti sínum til að gera athugasemdir á fyrstu stigum málsins.

En ég get engan vegin ímyndað mér að hægt sé að úthluta þessu eldisleyfi miðað við allt sem liggur fyrir.

Þá er ekki allt í lagi hjá þeim stofnunum, sem fara með þetta úthlutunarvald, í landi tækifæranna. “