Þetta er mjög jákvætt skref í verndun villta laxins. Með þessum samningnum, sem NASF hefur gert, má gera ráð fyrir að allt að fimm hundruð laxar eiga meiri möguleika á að komast á hrygningastöðvar í stað þess að enda í netunum.
Skv. frétt Morgunblaðsins:
„Færri laxanet verða í sumar í Hvítá og Ölfusá. NASF á Íslandi greindi frá þessu nú fyrir skemmstu og sendu út fréttatilkynningu um að samningar hefðu náðst við nokkra af landeigendum á vatnasvæðinu til tíu ára. Með samningnum er ljóst að allt að fimm hundruð laxar eiga meiri möguleika á að komast á hrygningastöðvar.
NASF ætlar að vinna með landeigendum og leigutökum á vatnasvæðinu að því markmiði að sem mest af laxinum fái að njóta vafans þegar hann er kominn á sínar hrygningaslóðir. Jafnframt lýsa samningsaðilar því yfir að þeir munu styðja og beyta sér fyrir auknum rannsóknum á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár. Samningsaðilar hafa væntingar um að aðgerðir þeirra muni hafa jákvæð áhrifa á laxagengd á svæðinu og með auknum rannsóknum verði hægt að mæla þau áhrif sem samningurinn mun hafa.
Bæði landeigendur og leigutakar á svæðinu koma að fjármögnun samkomulagsins í samstarfi við NASF á Íslandi. Þessi ráðstöfun, að semja við landeigendur um nýtingu á svæðinu, er í samræmi við stefnu og tilgang NASF á Íslandi, sem mótaður var af Orra heitnum Vigfússyni, stofnanda sjóðsins.“