Sjókvíaeldisfyrirtækin Arnarlax og Arctic Sea Farm hafa bæði brotið með einbeittum vilja gegn starfsleyfum með notkun á koparoxíðhúðuðum netapokum. Hætt er að nota slíkan búnað við Ástralíu og Nýja Sjáland vegna umhverfisskaðans. Hér sæta fyrirtækin engum viðurlögum.
Sjá umfjöllun Vísis:
Landvernd og Icelandic Wild Live Fund krefjast skýringa á starfsleyfi sem Umhverfisstofnun hefur veitt Arnarlaxi þrátt fyrir brot á starfsleyfi með notkun koparoxíð í sjókvíum sínum.
„Við furðum okkar á þessum vinnubrögðum Umhverfisstofnunar. Þegar upp komst að Arnarlax hafði um árabil brotið með einbeittum hætti gegn starfsleyfi sínu sætti fyrirtækið engum viðurlögum. Og nú hefur Umhverfisstofnun gefið út leyfi fyrir þessari brotastarfsemi án þess að fari fram mat á umhverfisáhrifum eins og Hafrannsóknastofnun mælir með að verði gert,“ segir Jón Kaldal talsmaður IWF í samtali við Vísi.
Í bréfi Landverndar kemur fram að Arnarlax varð við eftirlit Umhverfisstofnunar í nóvember 2018 uppvíst af brotum á starfleyfi, nefnilega því að hafa notað koparoxíð án heimildar. Umhverfistofnun greip ekki til neinna refsiákvæða. „En verðlaunar nú fyrirtæki sem er uppvíst að refsiverðri háttsemi með því að heimila það sama athæfi,“ segir í bréfi Auðar.
Jón segir að sjókvíaeldi á laxi er mengandi iðnaður sem skaðar lífríkið og er afdráttarlaus:
„Fyrirtæki sem stunda þessa starfsemi eiga ekki að fá minnsta afslátt frá því að virða þau skilyrði sem þau hafa gengist undir við útgáfu á starfs- og rekstrarleyfum.
Að sögn Jóns er Arnarlax er ekki eina sjókvíaeldisfyrirtækið sem hefur brotið með þessum hætti gegn starfsleyfi sínu. Sama brotastarfsemi er í gangi hjá Arctic Sea Farm í Dýrafirði sem er með koparoxíðhúðaða netapoka þar í sjó.
„Við viljum fá svör frá eftirlitsstofnunum af hverju þessi fyrirtæki eru ekki látin fjarlægja búnað sem liggur skýrt fyrir að þau mega ekki nota.“