„Matvælastofnun getur ekki áætlað hve margir fiskar hafa raunverulega sloppið vegna ýmissa óvissuþátta í eldisferlinu.“ Þetta segir í fréttatilkynningu frá MAST og fangar í hnotskurn þá óviðunandi stöðu sem er í eftirliti með starfsemi sjókvíaeldisfyrirtækja. Það er í algjöru skötulíki. Snýst að stærstu leyti um að taka á móti upplýsingum þegar fyrirtækjunum sjálfum þóknast að senda þær inn og skrifa svo fréttatilkynningar.
Norskar rannsóknir hafa sýnt að fiskar sem sleppa úr opnum sjókvíum eru tvisvar til fjórum sinnum fleiri en opinberar tölur segja.
Innan skamms mun Alþingi taka til meðferðar frumvarp um breytingar á lögum um fiskeldi. Það hlýtur að vera algjört forgangsmál að taka eftirlitsþáttinn þar til endurskoðunar.
„Ekki er ljóst hvað varð um tæpalega fimm þúsund laxa sem sluppu úr eldi Arnarlax í Tálknafirði í byrjun júlí. Fjöldinn er mismunurinn á slátruðum fiskum og áætluðum fjölda eldislaxa í kvínni. Fyrirtækið telur að þrjú hundruð laxar hafa sloppið en Matvælastofnun telur ekki hægt að sannreyna stærð sleppingarinnar vegna óvissuþátta í eldisferlinu. …
Vantar tæplega 5000 laxa
Matvælastofnun hefur nú fengið sláturtölur fyrirtækisins og borið saman við áætlaðan fjölda fiska í kvínni. Áætlað var að í kvínni væru tæplega 153 þúsund eldislaxar, þegar laxarnir sluppu, fram að slátrun voru skráð afföll á 4651 fiski og því er mismunurinn á áætluðum fjölda í kvínni og sláturtölum 4981 fiskur.
Sleppinging umfangsminni en tölur gefi til kynna
Matvælastofnun telur hins vegar að slysasleppingin hafi ekki verið jafn umfangsmikil og mismunurinn gefur til kynna, helstu ástæður þess séu að fjöldi dauðra fiska sé að jafnaði meiri en skráð afföll, fiskurinn skili sér ekki allur í dauðfiskabúnað á botni kvíarinnar og þá urðu afföll vegna útsetningar seiða og flutnings á fiskum milli kvía í febrúar. Mikil afföll geti leitt til enn meiri skekkju, magn hafi verið áætlað en ekki fjöldi fiska.“