Þessi merkilega frétt birtist í Morgunblaðinu. Þar kemur fram að ekki fást svör við spurningu um hvort Umhverfisstofnunin telji forsvaranlegt að eiturefni og lyf gegn laxa- og fiskilús séu í notkun á meðan áhrif þeirra á lífríki í þeim fjörðum þar sem þau eru notuð eru óþekkt.
Í umfjöllun Morgunblaðsins í janúar 2022 um notkun lyfja gegn laxalús í sjókvíaeldi upplýsti Umhverfisstofnun að hún hygðist taka til skoðunar notkun fiskilúsalyfja, nánar tiltekið emamectins, vegna mögulegra skaðlegra áhrifa á umhverfið. Eru nú liðin tvö ár og hefur skoðunin enn ekki farið fram. Hversu lengi málinu verður frestað hefur ekki fengist upplýst, segir í frétt Morgunblaðsins.
Umhverfisstofnun svarar því ekki hvenær standi til að skoða hver áhrif lyfja sem beitt er til að meðhöndla eldislax gegn laxalús eru á lífríki sjávar. Ekki hafa heldur fengist svör við spurningu um það hvort stofnunin telji forsvaranlegt að lyfin séu í notkun á meðan áhrif þeirra á lífríki í þeim fjörðum þar sem þau eru notuð eru óþekkt, að því er fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins.
…
Um mitt síðasta ár gerði blaðamaður tilraun til að fá svar við fyrrnefndum spurningum og svaraði Umhverfisstofnun þá: „Vegna mikilla anna og annarra verkefna hefur því miður ekki verið lokið við þetta verkefni. Í ljósi boðaðrar stefnumótunar matvælaráðuneytisins í lagareldi mun stofnunin skoða málið heildstætt með öðrum stofnunum sem koma að fiskeldismálum.“