Þetta eru afspyrnu vond tíðindi. Kynþroska eldislax streymir nú í árnar í Húnavatnssýslu og víðar og er tilbúinn til hrygningar.
Og ótrúlegt en satt þá eru sjókvíaeldisfyrirtækin, sem eiga þessa fiska og týndu úr netapokunum, stikkfrí gagnvart því tjóni sem þau valda með erfðablöndun þessara norskættuðu eldislaxa við villta íslenska laxastofna. Sama gildir um skaðann á orðspori þessara þekktustu laxáa landsins. Það hefur þegar beðið hnekki.
Þetta eru hryðjuverk segja staðarhaldarar. Við tökum undir þá lýsingu.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu:
„Illa farnir, eldislaxar veiddust í Miðfjarðará í morgun og Vatnsdalsá síðdegis. Í Miðfirði sást annar fiskur sem grunur leikur á að sé eldislax og stökk hann í sama hyl. Eldislaxinn í Miðfirði var verulega særður og uggar mjög skemmdir. Fiskurinn var lúsugur og kominn töluvert upp í ána. Hann veiddist á veiðistað sem gengur undir nafninu TT og er um fjóra kílómetra frá sjó.
Síðdegis veiddist í Vatnsdalsá grálúsug uggaskemmd hrygna sem Allt bendir til að sé eldislax. Hrygnan vigtaði rúm sex kíló. Grunur er uppi um að annar slíkur hafi veiðst í gærkvöldi.
…
„Þetta er eitthvað svo ótrúlega geggjað. Maður er hér með stórkostlega laxveiðiá í bómull og gerir allt sem maður getur til að ganga vel um hana og lífríkið í henni. Svo eru bara hreinræktaðirterroristar við hliðina á manni og þeim er skítsama. Ofan á þessa stöðu kemur svo getuleysi íslenskra stjórnmálamann. Þeir eru tilbúnir að eyða milljónatugum í girðingar til að forðast að riðuveiki smitist milli landshluta. En þegar kemur að villta laxastofninum á Íslandi þá er fólki bara skítsama og stjórnmálamenn eru þar fremstir í flokki,“ sagði Rafn Valur Alfreðsson leigutaki Miðfjarðarár í samtali við Sporðaköst. Miðfjarðaráin er undanfarin ár búin að vera besta náttúrulega laxveiðiá landsins. …
Björn K. Rúnarsson, leigutaki að Vatnsdalsá var viðstaddur þegar hinn meinti eldislax veiddist nú síðdegis. „Þetta er með hreinum ólíkindum. Maður er búinn að vera að heyra af þessum kvikindum síðustu daga. Það leynir sér ekki að þetta er lax ættaður úr eldi sem veiddist hér í Hnausastreng. Þetta eru bara hryðjuverk og enginn virðist ætla að gera neitt. Það eru kaldar kveðjur frá ríkisstjórninni sem þykist vera að taka á umhverfismálum og loftslagsvanda að láta svona framferði óáreitt. Þetta eru hryðjuverk gegn íslenskri náttúru að láta sjókvíaeldi viðgangast og getur riðið íslenska laxastofninum að fullu, en hann á í nægum vanda nú þegar,“ sagði Björn og var mikið niðri fyrir.
…
Hvernig varð þér við Rafn þegar þú sást þennan fisk?
„Ég varð ógeðslega reiður. Það vissu allir að þetta var að fara að gerast. Stjórnmálamenn hafa ekki nennt eða þorað að taka á þessu og ábyrgðin er alfarið þeirra. Það er verið að skipa fólki að flokka rusl heima hjá sér og fylla alla garða af sorpílátum svo ekki fari sama plast eða pappi. En þegar kemur að norskum eldislaxi, þá má hann vera í sjónum í illa gerðum sjókvíum í næsta nágrenni við laxveiðiárnar okkar. Er ekki allt í lagi hjá þessu fólki? Mér finnst skrítið að þetta sé að gerast á vakt Vinstri grænna. Þau virðast bara vera græn á tyllidögum,“ sagði Rafn Valur og það var auðheyrt að honum var gróflega misboðið.