Halamið út af Vestfjörðum eru eftirsóttustu fiskimið við Ísland, samkvæmt nýrri vefsíðu Hafrannsóknastofnunar um dreifingu veiða á Íslandsmiðum, og Vísir segir frá í þessari frétt.

Uppeldisstöðvar þorsksins og fjölmargra annarra nytjafisktegunda eru á Vestfjörðum enda hefur Djúpið löngum verið sögð helsta matarkista Íslendinga.

Það stappar nærri sturlun að þarna er verið að berjast fyrir því að bæta við tugþúsundum tonna af eldislaxi í opnum sjókvíum, jafnvel þótt áhrif svona gríðarmikils lífmassa á vistkerfi fjarðanna hafi ekki verið rannsökuð.

Norskir sjómenn halda því fram að sjókvíaeldið þar við land hafi haft skelfileg áhrif á rækjustofna og þorskinn. Þeir beinlínis fullyrða að laxeldiskvíar í sjó fæli þorskinn burt úr fjörðunum.

Þrátt fyrir að hafa stundað sjókvíaeldi í áratugi eru Norðmenn núna fyrst að hefja rannsóknir á áhrifum þess á þorsstofninn, en fyrir ríflega ári var sett fjármagn að andvirði um 650 milljónum íslenskra króna í það verkefni.