Kæru baráttusystkini, lesið þessa grein Benediktu og dreifum henni sem víðast. Það má ekki gerast að sjókvíum verði þröngvað ofan í Seyðisfjörð þvert á vilja heimafólks!

Í greininni sem birtist á Kjarnanum segir Benedikta ma:

„Vert er að skoða í þessu sambandi siðferðisvitund stórfyrirtækja í sjávarútvegi á Íslandi. Það vafðist ekki fyrir sjávarútvegsfyrirtækjum að leggja af útgerð og vinnslu í hverju þorpinu á fætur öðru til þess að geta aukið við arðgreiðslur eiganda sinna. Það var ekki horft til byggðarlaganna og framtíð þeirra þá. Skilaboð sjókvíaeldisfyrirtækjanna í dag eru að nú sé björgunin til þessara sömu þorpa komin – nema hvað að leikborðið er alveg eins uppsett, meira að segja aðeins verra. En það verða aftur örfáir sem taka arðinn til sín og það sem verra er að fyrirtækin eignast bæjarfélögin. Setja upp sín verð og sínar kröfur þegar völdin eru orðin nægileg, til þeirra þarf að sækja hvers kyns styrki og guð hjálpi þér ef þú ætlar ekki að spila með. Niðurstaðan er óheilbrigður samfélagsstrúktur þar sem fáir ráða ríkjum án þess að fólk átti sig endilega á því. Við höfum séð þetta raungerast á Vestfjörðum þar sem þegar er hafið dómsmál vegna vangoldinna efnda í greiðslu til sveitarfélagsins. Það er merkilegt að þeir sýna sitt rétta andlit svona fljótt og áður en öll leyfi eru komin til framkvæmda. Það ætti að geta orðið okkur víti til varnaðar.  …

Það er ekki hægt að stilla því þannig upp að þar sem Seyðfirðingar setji sig upp á móti opnu sjókvíaeldi með þessum yfirgangi sé samfélagið á móti atvinnuuppbyggingu. Þvert á móti hefur verið uppbygging á undanförnum árum og mikil trú á framtíðina með kröftugu fólki sem hér býr.  Á Seyðisfirði er núna auðugur jarðvegur og margir sprotar hafa sprottið upp á heilbrigðum hraða. Það er nóg eftir af fræjum og við viljum veðja á þau. Við veðjum ekki á skammtímagróða sem þegar heildarmyndin er skoðuð er mjög fáum til framdráttar og umfram allt er náttúrunni hættulegur.“