Við birtum hér valda kafla úr 16 blaðsíðna umsögn okkar um Lagareldisskýrslu Boston Consulting Group, sem gerð var að beiðni Matvælaráðuneytisins.
Í skýrslunni eru ýmsar rangfærslur, hæpnar fullyrðingar og upplýsingar lagðar fram án þess að fyrir þeim séu tilgreindar heimildir. Það er mat okkar hjá IWF að skýrslan sé svo gölluð að hún geti ekki þjónað sem grunnur að stefnumótun fiskeldis á Íslandi til framtíðar.
Fullyrðing BCG:
„Eftir því sem umfang í fiskeldi eykst á Íslandi myndast tækifæri til að stækka hlut staðbundinnar þjónustu. Þetta á sérstaklega við um fóðurframleiðslu og áframvinnslu afurða, þjónusta sem í dag eru að mestu sótt utan Íslands.
Athugasemd IWF:
Hér væri, vegna stöðu Íslands, sem þessi skýrsla á að greina, nauðsynlegt að fá fram hvaða áhrif tollasamningar, við ESB og önnur efnahagssvæði, og aðgengi að ódýru vinnuafli hafa á hvar áframvinnslu afurða (virðisaukandi vinnsla) eldislax fer fram.
Ísland og Noregur eru bæði aðilar að EES samningnum og staða landanna gagnvart helstu útflutningsmörkuðum með eldislax er mjög keimlík.
Stærstur hluti eldislax sem er fluttur út frá Noregi er ferskur slægður fiskur með haus. Fer hann meðal annars á því formi til stórra iðnfyrirtækja í ESB löndum þar sem áframvinnslan fer fram, í vörur eins og flök, reyktan lax eða tilbúnar máltíðir.
Mjög lítið brot af eldislaxi er flakaður og unninn áfram í Noregi vegna hás framleiðslukostnaðar og tolla sem gilda um útflutning á virðisaukandi afurðum á Evrópumarkað.