Bubbi lýsir þessari sögu einsog hún er.
Það er merkilegt að meintur umhverfisráðherra hefur ekki sagt orð um þessa katastrófu sem er í gangi. Af hverju skyldi það vera?
Vísir fjallaði um þrumugrein Bubba:
„Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens sakar íslenska stjórnmálamenn um græðgi í skoðanagrein á Vísi um laxeldi, en þar segist hann óttast að Íslendingar muni útrýma villta laxastofninum líkt og þeir drápu síðasta geirfuglinn.
„Hvað gerðist hjá Sjálfstæðismönnum og vinum þeirra sem með völdin fara? Hins sama má spyrja sig með VG og Framsókn. Hvernig geta menn lagst á koddann vitandi að þeir litu undan?“ spyr Bubbi.
Hann minnist þess að hafa skrifað marga pistla um laxeldi í sjó fyrir nokkrum árum og fullyrðir að þar hafi hann ekki verið að spá neinu, heldur segja skýrt og greinilega hvað myndi gerast.
„Fyrrverandi forseti alþingis fór að lobbíast fyrir norska auðkýfinga og fjörður eftir fjörð var gefinn norskum aurgoðum sem vildu flýja regluverkið í Noregi og sáu að Ísland var án eftirlits. Engar reglur, fyrstur kemur fyrstur fær. Örfáir Íslendingar leyfðu þessu að gerast með hjálp ráðamanna, og þó höfðu menn vítin til að varast þau,“ skrifar Bubbi.
„Húskarlar Norðmanna eltu uppi allt sem sagt var eða skrifað, rengdu það, fóru líkt og hýenur um netið og sögðu: kvíarnar munu ekki rifna, við beitum nýrri tækni, firðirnir munu ekki spillast, lífríkið mun ekki hljóta skaða af. Við sögðum: laxinn mun sleppa, fara í árnar og hrygna, en húskarlar Norðmanna svöruðu: árnar eru of langt í burtu bla bla bla!“ bætir hann við.
Nú segir hann það blasa við að umrædd loforð hafi verið svikin. Undanfarið hefur verið greint frá því að eldislaxar hafi fundist í ám, en Bubbi kallar ástandið hamfarir.
„Trúðu mér,“ skrifar Bubbi, sem vill meina að ráðamenn hafi verið meðvitaðir um hvað myndi gerast. „Það er lítill munur á að útrýma villtum laxastofni hér á landi og því sem er verið að gera gegn lífríkinu í Brasilíu þar sem ein til tvær tegundir hverfa dag hvern. Sami hvati, sami glæpur og hann hefur nafn: Græðgi.“
Lokaorðum sínum beinir Bubbi að íslenskum þingmönnum og ráðherrum sem hann segir að þurfi að skammast sín.
„Íslenskir þingmenn og ráðherrar seinustu ára: Skömm ykkar er mikill og hún mun lifa inní næstu kynslóðir sem munu spyrja: hvernig gátuð þið gert okkur og landinu þetta?“