Sú frétt var að berast frá MAST að veira sem getur valdið sjúkdómnum blóðþorra í laxi (ISA – Infectious salmon anaemia) hefur greinst í eldislaxi úr sjókví Laxa fiskeldis í Reyðarfirði. Veiran uppgötvaðist við krufningu og sýnatöku í kjölfar vaxandi óútskýrðs fiskidauða í sjókvínni. Ákvörðun hefur verið tekin um að aflífa eldisdýrin í kvínni og farga þeim.

Samkvæmt frétt MAST er enn ekki fyllilega staðfest að þetta sé sjúkdómsvaldandi afbrigði ISA-veirunnar en ef það er raunin, sem allt bendir til, er það í fyrsta sinn sem þessi skæði sjúkdómur greinist í laxi hér á landi.

Þetta eru hrikaleg tíðindi. Fyrir eldisdýrin en líka villta laxinn því veiran er bráðsmitandi og miklar líkur eru á að hún berist í villta stofna með alvarlegum afleiðingum.

Dauðshlutfallið í íslensku sjókveldi er um 15 prósent á þessu ári, sem er hátt í öllu samhengi. Sjókvíeldið hér hefur hingað til verið laust við veirusjúkdóma sem hafa verið mjög skæðir í norsku sjókvíaeldi. Ef rétt er að þessi vonda útgáfa ISA er hér á ferðinni verður þetta blóðbað enn verra.

Í þessari einu kví sem á að slátra öllum laxi upp úr eru líklega um 200 þúsund fiskar.

Því miður þarf þó ekkert af þessu að koma á óvart. Um leið og sjókvíaeldi vex að umfangi þá stigmagnast sjúkdómar og sníkjudýr sem því fylgir. Þetta eru aðstæður sem þekkjast í öllum verksmiðjubúskap þar sem mörg dýr eru höfð saman í þauleldi á litlu svæði og skapast kjöraðstæður fyrir sjúkdóma að grassera.

Blóðþorri rústaði sjókvíaeldi í Chile og Færeyjum um og upp úr 2000. Um þá hörmungaratburði má til dæmis lesa í afbragðsbók Kjersti Sandvik, „Undir yfirborðinu“. Hún hefur verið þýdd á íslensku og er þessi kafli á blaðsíðum 136 til 159 í þeirri útgáfu.