Björk er svo sannarlega öflugur liðsauki í baráttunni gegn skaðsemi opins sjókvíaeldis á laxi.
„Ef maður fórnar náttúrunni þá lenda barnabörnin manns eða börnin okkar í súpunni.“
Þetta er kjarni málsins.
Björk ræddi við Hafdísi Helgadóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2 um mikilvægi þess að vernda villta náttúru og íslenska laxastofninn.
„ […] Björk hefur beitt sér fyrir umhverfismálum um árabil og meðal annars verið áberandi í baráttu náttúruverndarsinna gegn hvalveiðum við Íslandsstrendur. Hún hefur einnig fylgst grannt með sjókvíaeldismálum hérlendis síðustu ár. „Þetta er búið að vera mikið í fréttum en náði hápunkti í vor þegar útkoman úr öllum þessum skýrslum kom. Þá var þetta svo svart á hvítu að þetta væri algjörlega fáránlegt.“
„Ég brást við og talaði við fólk sem ég þekki úr náttúrubaráttu. Við erum mikið búin að vera að funda síðan í sumar.“ Meðal þeirra sem vinna með Björk í baráttunni gegn sjókvíaeldi á Íslandi eru Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur, Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, náttúruverndarfulltrúi hjá Ungum umhverfissinnum og Jón Kaldal og Ingólfur Ásgeirsson hjá Icelandic Wildlife Fund. „Þetta er mjög ólíkur hópur,“ segir Björk. Allir taki höndum saman í baráttunni. …
Björk segir brýnt að efla löggjöfina í kringum sjókvíaeldi og það er eitt af baráttumálum hópsins sem hún starfar með. „Í fyrsta lagi þurfum við að vera með æðislegt regluverk í okkar kerfi og lagaumhverfi þannig þetta sé gert á annan hátt ef það á að gera þetta. Og svo er þetta líka vernd fyrir staði sem eru ekki þegar búin að fá þetta. Að það sé hægt að segja: nei, ég vil þetta ekki í minn fjörð.“
Seyðfirðingar hafa mótmælt áætlunum um laxeldi í firðinum og undirbúa lögsókn gegn áætlunum um allt að 10.000 tonna sjókvíaeldi. Björk og söngkonan Rosalía taka höndum saman og gefa út lagið Oral síðar í mánuðinum og ágóði lagsins fer meðal annars í að styrkja lögsóknina. „Ástæðan fyrir því að við veljum þau er að þau eru mjög gott dæmi um fjörð sem á að fara að setja þetta í en íbúar mótmæla. Þau vilja þetta ekki en það er eins og þau hafi ekki rödd. Það er ekki hlustað á þau.“
„Oft í svona málum, sérstaklega hvað varðar umhverfisvernd, þarf að koma með eitt dæmi sem hefur fordæmisgildi,“ segir Björk. Hún vonast til að barátta Seyðfirðinga verði slíkt dæmi. „Vonandi söfnum við miklum pening. Við erum búin að eyrnamerkja pening ef það verða nokkur málaferli í framtíðinni. Þetta er náttúrulega langhlaup.“
„Í þessu sjókvímáli eru bæði hægri og vinstri á móti,“ segir Björk. Hún segir fólk á breiðu sviði pólitískra skoðana vera andvígt sjókvíeldi í núverandi mynd sem sé fágætt í náttúruvernd. „Hvalamálið var meira þannig að vinstri væru á móti og hægri með. Ekki alveg svona svart og hvítt kannski en mikið.“
„Ég segi við þessa norsku auðmenn sem eru búnir að vera að kaupa þessi sjókvíaeldi: hvaða framtíð eruð þið að bjóða ykkar barnabörnum.“ Björk segir blasa við að laxeldi geti ekki haldið áfram með óbreyttum hætti. Örfáir séu að græða háar upphæðir peninga á kostnað allrar þjóðarinnar. „Þetta eru nokkur nöfn sem eru að græða rosalegan pening á þessu á allt of, allt of mikinn kostnað okkar hinna. Ef maður fórnar náttúrunni þá lenda barnabörnin manns eða börnin okkar í súpunni.“