Stangveiðiferðamenn á hlaðinu við Norðurtungu í Borgarfirði árið 1920. Kynslóð eftir kynslóð hafa tekjur af veiðirétti skipt sköpum fyrir búsetu fjölmargra fjölskyldna í sveitum landsins.

Að tryggja velferð villta laxins er eitt stærsta byggðamál okkar tíma. Jón Kaldal skrifar.
Þessi grein birtist fyrst í september 2024 tölublaði Sportveiðiblaðsins.

Sorglegt er hugsa til þess en frá aldamótum hafa íslenskir stjórnmálamenn tekið u-beygju frá stórmerkilegri sögu fyrri kynslóða við vernd villtra laxastofna landsins. Stóra ógæfusporið tók framsóknarmaðurinn Guðni Ágústsson þegar hann gegndi embætti landbúnaðarráðherra og ákvað í byrjun aldarinnar að heimila notkun norska eldislaxastofnsins í sjókvíum. Fram að þeim tíma hafði legið blátt bann við að setja þann stofn í sjó við landið.

Ákvörðun Guðna opnaði dyrnar fyrir norsku sjókvíaeldisrisana sem hafa skilið eftir sig slóð eyðileggingar í öllum löndum þar sem þeir hafa fengið að koma sér fyrir.

Við skulum þó ekki gleyma því að undanfararnir voru örfáir íslenskir athafnamenn sem hlupu á milli fjarða, eins og óþolandi gestirnir sem kasta handklæði sínu á sólbekkina við sundlaugina, og tryggðu sér ókeypis svæði fyrir sjókvíaeldi alls staðar þar sem mögulegt var. Þeir hafa nú flestir selt sig að stóru leyti út úr fyrirtækjunum með gríðarlegum persónulegum hagnaði.

Á meðan Guðni var landbúnaðarráðherra sagði hann ekki koma til greina að leyfa innflutning erfðaefnis til að blanda við íslenska kúastofninn. Ef honum hefði þótt jafn vænt um íslenska villta laxinn og honum þótti um kúna væri sú ömulega staða komin upp að útbreidd erfðablöndun við eldislax mælist nú í villta laxastofninum okkar.

 

Af hverju er erfðablöndunin hættuleg villtum laxastofnum?

Nú kunna einhverjir að spyrja: Af hverju er erfðablöndun við eldislaxinn svona slæm?

Svarið við því teygir sig aftur um tíu þúsund til loka ísaldar þegar villti laxinn nam hér land. Á þessum þúsundum ára hefur laxinn aðlag sig að ýmsum breytingum bæði í hafinu og í sinni heimaá. Í hafinu dvelur laxinn á fæðuslóð, tekur út vöxt og fullorðnast. Til að fjölga sér leitar hann aftur í sömu á, jafnvel sama hyl og hann klaktist út í sjálfur. Hæfileiki laxins til að rata aftur heim um mörg þúsund kílómetra leið í sjónum er eitt af undrum veraldrar sem vísindi okkar tíma geta ekki enn útskýrt fyllilega.

Að fá erfðaefni frá framandi norsku hraðvaxta húsdýri brýtur upp þessa löngu þróunarsögu með skelfilegum áhrifum fyrir villta laxinn

Þetta er í raun kenning Darwins um náttúruval í sinni einföldu mynd þar sem hinir hæfustu lifa af. Þúsund ára þróun hefur byggt upp í genum villta laxins hæfileika til að takast á við fjölbreyttar aðstæður. Norski eldisstofninn var búinn til með „kynbótum“ á nokkrum áratugum. Sú ræktun snerist öll um að auka vaxtarhraðann sem mest. Það tókst en á kostnað heilbrigðis eldislaxanna sem eru allir með aflagaðan og veikan hjartavöðva auk þess sem yfir helmingur þeirra er heyrnalaus eða heyrnaskertur og stór hluti með aflagaða hauskúpu og/eða beinagrind vegna vaxtarhraðans.

Með erfðablönduninni minnkar líffræðilegi fjölbreytileikinn stofnanna sem gerir þá mun viðkvæmari fyrir áföllum. Áhrifin geta bæði komið fram á löngum tíma og strax því hæfileiki blendinganna til að lifa af í náttúrunni snarminnkar. Þeir missa getuna til að rata, verða jafnvel of þungir til að komast á hrygningarslóð ásamt ýmsum öðrum neikvæðum áhrifum.

Afleiðingarnar verða síðan þær að stofn viðkomandi vatnsfalls minnkar og hverfur á endanum ef þessi erfðablöndun fær að viðgangast ár eftir ár eftir ár.

 

Eitt mikilvægasta byggðamálið

Um 3.400 lögbýli, þar af í mörgum tilvikum bændur um allt land fá tekjur af sjálfbærum stangveiðum. Reglusetning um laxvernd og nýtingu er eitt mikilvægasta byggðamál sem ráðist hefur verið í á Ísland.

Löngu áður en orðalagið sjálfbær nýting rataði inn í tungutak okkar voru sett lög sem áttu að tryggja slíka umgengni við villta laxinn. Þannig voru veiðar á laxi takmarkaðar árið 1875 með því að friða hann frá september til maí. Árið 1923 voru sett vatnalög þar sem var bannað að aðskilja veiðirétt og landareign. Þar með var ekki hægt að flytja „kvótann“ burt úr sveitinni. Lög um fiskræktarfélög voru sett 1929 þar sem samvinna landeigenda um veiðiár var áskilin. Risa verndarskref var svo tekið 1932 þegar laxveiði í sjó og á ósasvæðum var bönnuð.

 

Mikilvægar kosningar framundan

Þjóðin getur að mestu verið stolt yfir sögu laxverndar á tuttugustu öldinni. Þeim mun sorglegra er að við erum að klúðra henni á þessari öld. Ofveiði, mengun og nú laxeldi í opnum sjókvíum hefur útrýmt um 99 prósent af villtum laxastofnum sem áttu óðul sín í öðrum löndum við Norður-Atlantshafið. Staða íslenska stofnsins er margfalt sterkari vegna skynsamlegra ráðstafanna fyrri kynslóða.

Það er ekki of seint fyrir okkur að vernda okkar merka stofn og tryggja að þær kynslóðir sem eftir okkur koma geti notið hans með sjálfbærum hætti. Til þess þurfum við þó að taka höndum saman og tryggja að stjórnmálafólk sem deilir ekki þeirri sýn okkar verði ekki kosið á Alþingi í næstu kosningum.

Jón Kaldal er talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins