Vel var mætt á málstofu í Odda þar sem Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, kynnti nýja skýrslu um áhrif sjókvíaeldis á byggð í næsta nágrenni, leyfisveitingar og byggðastefnu.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að þar sem sjókvíaeldi á laxi er mest við Ísland, á sunnanverðum Vestfjörðum, hefur börnum fækkað, fjölskyldum hefur fækkað og karlar eru orðnir hlutfallslega fleiri en konur svo töluverður muna.
Á myndinni sem hér fylgir má sjá hversu sláandi mikill þessi munur er. Að jafnaði er fjöldi karla á svæðinu 23 prósent umfram fjölda kvenna. Mestur er munurinn á Bíldudal þar sem karlar eru 39 prósent fleiri en konur.
Í skýrslunni kemur fram að íslenskum ríkisborgurum hefur farið jafnt og þétt fækkandi á svæðinu síðastliðin tíu ár og skýrar vísbendingar eru um að stór hluti starfsmanna sjókvíaeldisfyrirtækjanna líti fremur á þorpin sem nokkurs konar verbúðir en eiginlegt heimili.
Þetta eru sérstaklega forvitnilegar tölur því þær afsanna þau meginrök hagsmunagæslusamtaka sjókvíaeldisfyrirtækja að sjókvíaeldi á laxi styrki búsetu í brothættum sjávarbyggðum.
Þar sem börnum fækkar, fjölskyldum fækkar en körlum sem búa einir fjölgar verður ekki viðhaldið heilbrigðu og sjálfbæru samfélagi.