Í athyglisverðu meistaraverkefni í sjávar- og vatnalíffræði eftir Evu Dögg Jóhannesdóttur, við Háskólann á Hólum kemur þetta fram:

„Rannsóknir sýna að á svæðum þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er stundað eru villtir laxfiskar meira smitaðir af sjávarlús, einna helst laxalús, heldur en svæðum án eldis. Eldi á laxi (Salmo salar) í sjó er nýleg atvinnugrein á Íslandi og því mikilvægt að afla þekkingar um sjávarlýs á villtum laxfiskum. Laxeldi var stundað í öllum fjörðum sunnanverðra Vestfjarða árið 2017. Í þessu verkefni var lúsasmit villtra laxfiska, sjóbirtings (Salmo trutta) og sjóbleikju (Salvelinus alpinus), kannað í öllum fjörðum sunnanverðra Vestfjarða frá júní til september 2017 og niðurstöður bornar saman við lúsatalningar í kvíum á svæðinu, sem og fyrri athuganir á villtum laxfiskum. Niðurstöður sýna aukið smit villtra laxfiska á svæðinu og gefa vísbendingu um neikvæð áhrif á þessa stofna.“

Sjá frétt á vef Landssambands veiðifélaga um rannsóknina sem má nálgast sem pdf-skjal í heild sinni á vefnum Skemman.

(ATHUGASEMD FRÁ IWF: Ákveðið var að taka ofangreindan texta orðrétt upp úr inngangi að ritgerðinni eftir að höfundur hafði gert athugasemd við fyrri framsetningu okkar þar sem tengslin við aukið lúsasmit fyrir vestan við sjókvíaeldi voru sögð meira afgerandi en þarna kemur fram.)

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að í umsögn Hafrannsóknastofnunar frá 2018 um umsókn Arnarlax um aukið sjókvíaeldi í Arnarfirði er bent á að það komi „skýrt fram í gögnum framkvæmdaraðila að laxalús sé orðin vandamál í fiskeldi hér á landi. Fyrir notkun lúsalyfja hafi fjöldi lúsa á eldisfiskum verið langt yfir þeim mörkum sem sett hafa verið í Noregi varðandi þörf fyrir meðhöndlun við laxalús. Þá hafi einnig þurft að meðhöndla eldisfisk vegna fiskilúsar sem hafi verið vandamál í fiskeldi bæði í Færeyjum og Skotlandi. Hér sé því um raunverulegt vandamál að ræða sem geti snert bæði fiskeldi og villta stofna. Þá komi fram í gögnum framkvæmdaraðila að vísbendingar séu um að laxalús finnist í vaxandi mæli á villtum fiskum á eldissvæðum. Hafrannsóknastofnun segir ljóst að að fyrirhuguð framleiðsluaukning Arnarlax komi til með að auka lífmassa á ræktunarsvæðum umtalsvert og þar með hættu á lúsasmiti.

Að auki bendir Hafrannsóknastofnun á að aflúsunarefni hafi áhrif á hamskipti laxalúsa og að rannsóknir hafi sýnt fram á skaðleg áhrif efnanna á önnur krabbadýr. Þar sem áætlað sé að kvíar séu í nálægð við rækju í Arnarfirði leggi Hafrannsóknastofnun til að bannað verði að nota aflúsunarefni í nágrenni rækjusvæða.“

Sjá: Framleiðsluaukning á laxi um 4.500 tonn á vegum Arnarlax í Arnarfirði – Ákvörðun um matsskyldu. Skipulagsstofnun