Trygve Poppe, prófessor emeritus við norska Dýralæknaháskólann segist aldrei hafa séð jafnilla útleikna eldislaxa og í sjókvíaeldi Arnarlax og Arctic Fish fyrir vestan. Trygve hefur yfir 40 ára reynslu af norsku laxeldi.

Vísir ræddi við Poppe:

…Trygve Poppe, fyrrverandi prófessor í velferð fiska, segir fiskana á myndunum í kvíunum í Tálknafirði vera við dauðans dyr vegna lúsarinnar. Hann segist aldrei hafa séð svo sundurétna fiska í svo miklu magni áður.

„Þetta eru mjög slæmir og útbreiddir áverkar. Ég myndi segja að þetta væri lokastig laxalúsaplágu þar sem lýsnar éta allt roðið af haus og hnakka fisksins. Svo, já, þessir fiskar þjást greinilega og þeir hljóta að hafa þjáðst býsna lengi að mínu viti því þetta eru útbreidd sár sem eru mjög langt gengin,“ segir Poppe.

Það kemur honum á óvart að norskir eigendur sjókvíaeldisfyrirtækjanna hafi leyft lúsinni að breiðast svona út. Þeir eigi að vita betur.

„Þeir eiga sannarlega að hafa reynslu og þekkingu á því hvernig á að meðhöndla laxalús. Þetta á að vera vel þekkt vandamál hjá norskum fiskeldismönnum sem hafa komið sér fyrir á Vestfjörðum. Ég er undrandi á umfanginu og að einhver skyldi leyfa þessu að gerast. Þetta er mjög alvarlegt brot á dýravelferðarreglum,“ segir Trygve.