Við vekjum athygli á þessari áskorun Hafrannsóknastofnunar og tökum eindregið undir hana.
Af vef Hafrannsóknarstofnunar:
„Þar sem ljóst er að laxagöngur eru litlar í sumar hvetur Hafrannsóknastofnun veiðifélög og stangveiðimenn til gæta hófsemi í veiði og að sleppa sem flestum löxum aftur eftir veiði. Þetta er mikilvægt til að hrygningarstofninn í haust verði eins sterkur og unnt er. Hvernig best er að stunda veiðar og sleppa laxi er víða hægt að finna á netinu t.d. á www.angling.is
Laxveiði í ám landsins hefur með minnsta móti í sumar. Nokkrar ástæður eru fyrir því. Klakárgangurinn frá 2015 var með minnsta móti á í ám á Norður- og Austurlandi sem leiddi til þess að gönguseiðaárgangur 2017 var lítill og skilaði hann fremur litlum smálaxagöngum 2018 og svo fáum stórlöxum 2019. Á Suður- og Vesturlandi var klakárgangurinn frá 2015 lítill sem leiddi til færri gönguseiða sem gengu út 2018 og þar með færri löxum nú í sumar. Auk þess hefur verið lítið vatn í ánum í sumar og aðstæður fyrir uppgöngu laxa og veiði með versta móti líkt og veiðitölur það sem af er sumri bera með sér. Enn er þó von um að smálaxagöngur á Norður- og Austurlandi eigi eftir að skila sér að einhverju marki. Heimtur úr sjó hafa almennt farið minnkandi við Atlantshaf undanfarin ár líkt og komið hefur fram í nágrannalöndunum. Ástæður þess eru ekki þekktar og ekki verður séð að hægt sé að hafa áhrif á það sem gerist í hafinu. Ljósu fréttirnar eru þær að í kjölfar þess að í flestum ám er skylt að sleppa stórlöxum hefur þeim tekið að fjölga á nýjan leik sem hefur skilað aukinni hrygningu og sterkari seiðaárgöngum síðustu árin sem gefur ákveðna von um betri tíð á næstu árum. Það sem í okkar valdi stendur er að gæta þess að ávalt sé nægilega stórir hrygningarstofnar til að nýta þau búsvæði sem í ánum eru til seiðaframleiðslu. Miðað við núverandi aðstæður er ljóst að hrygningarstofnar haustsins verða með minnsta móti og hvetur Hafrannsóknastofnun veiðimenn og veiðiréttarhafa til að gæta hófs við veiðar og sleppa sem allra flestum löxum sem veiðast til að hrygningarstofn haustsins verði sem stærstur. Annars er hætta á að sá seiðaárgangur sem undan þeim kemur verði einnig smár og veiðiþol laxastofna minnki enn frekar.“