Tæplega fimm hundruð eldislaxar úr sjókví Arctic Fish í Kvígindisdal í Patreksfirði voru fjarlægðir úr ám víða um land haustið 2023. Við munum aldrei vita fjöldann sem gekk í árnar í raun og veru. Öruggt er að aðeins tókst að fjarlægja hluta þeirra.
Hrútafjarðará og hliðará hennar Síká voru meðal áa sem urðu illa úti en úr þeim voru fjarlægðir 50 eldislaxar. Höfðu þeir synt um 320 kílómetra frá kvínni sem starfsmenn Arctic Fish rufu í netapokann.
Sleppifiskar, laxalús og sjúkdómar úr sjókvíaeldi munu á endanum eyða íslenska villta laxastofninum ef ekkert verður að gert. Það er því miður einföld staðreynd.
Heimildarmyndin Árnar þagna var sýnd í Gamla bíósalnum á Blönduósi 14. nóvember. Að lokinni sýningu fengu frambjóðendur til Alþingis að útskýra fyrir kjósendum í Norðvesturkjördæmi hvort og þá hvernig þeir ætla að koma í veg fyrir sama tjón og orðið er í Noregi á villtum laxastofnum með ömurlegum afleiðingum fyrir samfélög til sveita.
Þetta er brýnt mál um land allt en þó sérstaklega við Húnaflóa þar sem ár urðu illa úti í fyrra þegar hundruðir eldislaxa sem Arctic Fish lét sleppa úr sjókví sinni í Patreksfirði, syntu 320 km og gengu í ár við flóann.
Enn vitum við ekki hversu djúpur skaði varð á villtum laxastofnum svæðisins en hitt liggur fyrir að hann var þegar orðinn verulegur árið 2021.
Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar, sem birt var 24. júlí í sumar, kemur fram að erfðablöndun við eldislax í Hrútafjarðará var komin í 11 prósent þegar 2021.
Það er skelfileg tala, langt yfir þeim mörkum sem áttu að vera möguleg samkvæmt áhættumati um erfðablöndun sem Hafrannsóknastofnun gefur út.
Mikill þungi var í umræðum þegar frambjóðendur sátu fyrir svörum.
Fólkið í Húnavatnssýslum vill vita hvernig stjórnmálamenn ætla að standa vörð um villta laxastofna og þau mikilvægu hlunnindi sem þeir færa sveitum landsins.
Fulltrúar þessara flokka voru mættir: VG, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar.
Auðu stólarnir voru ætlaðir flokkum sem ekki sendu fulltrúa til fundarins, þeir voru Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Lýðræðisflokkurinn.
Meðal þess sem kom fram á fundinum var að fulltrúar allra flokka nema Viðreisnar sögðust styðja að gildistími leyfa fyrir sjókvíaeldi yrði færður aftur í tíu ár, einsog var til ársins 2019 en þá var gildistíminn lengdur í sextán ár.
Allir frambjóðendur voru sammála um að það yrði að hafa alvarlegar afleiðingar ef skilyrði leyfa væri ekki virt.
Næstu sýningar á Árnar þagna eftir Blönduós 14. nóv verða á þessum stöðum og dögum:
17. nóv: Seyðisfjörður – Herðubreið
18. nóv: Vopnafjörður
19. nóv: Reykjavík – Háskólabíó
20. nóv: Selfoss – Þingborg