Hér er ágætis pistill eftir Árna Pétur Hilmarsson. Sýnir að landeigendur og sveitastjórnarmenn hafa miklar áhyggjur af auknu laxeldi í opnum sjókvíum.

Árni Pétur segir m.a.:

„Einar K. Guðfinnsson, sá ágæti maður, skrifar grein í Fréttablaðið í síðustu viku sem kannski mætti hafa gaman af ef ekki lægi svo mikið undir. Aðallega er hann að ræða í gífuryrðum um meint gífuryrði annarra án þess að leggja fram nokkur rök en er samt ofan­dottinn af meintu rökfærsluleysi þeirra er hann ritar gegn. Það eina sem er hans haldreipi er „mat“ Hafrannsóknastofnunar, stofnunar sem ekki hafði hugmynd um að 160 þúsund laxaseiðum var sleppt úr sjókví í Tálknafirði og ollu erfðamengun í nærliggjandi á. Ekkert kemur fram í greininni hvernig þetta „mat“ Hafrannsóknastofnunar var unnið.

Nú er það svo að ég er ekki sérfræðingur á sviði laxeldis (frekar en Einar K.) en ég veit samt að ég er hræddur!

Ég er hræddur um hvaða áhrif laxeldi hefur á þau hundruð áa sem á Íslandi renna.

Ég veit að reynsla annarra þjóða af laxeldi er slæm hvað varðar umhverfismengun, sjúkdóma, slysasleppingar og erfðablöndun.

Ég veit að á Íslandi eigum við eitthvað sem er algerlega einstakt í heiminum, sem eru fiskistofnarnir okkar.“