Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er á móti laxeldi í opnum sjókvíum og fer andstaðan við þessa skaðlegu starfsemi vaxandi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu þar sem 69 prósent þátttakenda segjast vera andvíg sjókvíaeldi.

Aðeins 10 prósent eru hlynnt þessari starfsemi.

Mikil andstaða er við þennan iðnað meðal kjósenda allra flokka.

Í umfjöllun Heimildarinnar segir:

Hlutfall þeirra sem eru andvíg laxeldi í sjókvíum við Ísland hefur vaxið um 50% á síðustu tveimur árum; farið úr 46% í ágústkönnun Maskínu 2021 í 69% í könnun sem fyrirtækið framkvæmdi í þessum mánuði.

Í ágúst 2021 voru 23% svarenda hlynnt laxeldi í skjókvíum en það hlutfall er nú komið niður í 10%.

Svipuð þróun hefur átt sér stað hvað varðar laxeldi á landi á Íslandi en mun fleiri eru þó hlynntir því en sjókvíaeldinu eða 47%. 26% svarenda sögðust andvíg laxeldi á landi í nýjustu könnun Maskínu en í ágúst 2021 voru 14% andvíg því.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins reyndust líklegastir til þess að segjast hlynntir laxeldi í sjókvíum en samt voru einungis 21% þeirra hlynntir því. Kjósendur Samfylkingarinnar reyndust hvað andvígastir en 85% þeirra sögðust andvígir laxeldi í sjókvíum við Ísland.