Já takk

Vísir fjallar um þessi gleðilegu tíðindi:

Stjórnvöld í Kanada hafa ákveðið að banna fiskeldi í opnum kvíum við strendur Bresku-Kólumbíu. Bannið tekur gildi eftir fimm ár og hefur verið fagnað af umhverfisverndarsinnum.

Bannið er framhald af stefnumótun sem hófst fyrir um það bil fimm árum en þá var ákveðið að færa allt fiskeldi yfir í lokaðar kvíar til að vernda villta laxastofna. Jonathan Wilkinson, auðlindaráðherra, segir um að ræða skref í þágu laxastofnanna, náttúrunnar, sjálfbærni og hreinnar tækni.

Sjókvíaeldi er umfangsmikið í Bresku-Kólumbíu og samtök fyrirtækja í iðnaðinum segja að um 6.000 störf muni hverfa ef af banninu verður. Sjókvíaeldi skapi 880 milljónir Bandaríkjadala í tekjur fyrir samfélögin á svæðinu.

Skoðanakannanir sýna að meirihluti íbúa Bresku-Kólumbíu er fylgjandi banninu og þá hafa yfir 120 hópar frumbyggja á svæðinu lýst yfir stuðningi við landeldi.