Auðvitað vilja náttúruverndarsamtök stöðva notkun koparoxíðs í sjókvíaeldi. Efnið sest á botninn og er skaðlegt lífríki.
Eins og sagt er frá í þessari frétt hefur Hafrannsóknastofnun bent á að koparoxíð hefur verið notað hér við land í níu ára án leyfis. Það hlýtur að eiga að hafa afleiðingar fyrir fyrirtækin sem brjóta af sér með svo einbeittum hætti.
Þrjár kærur hafa verið lagðar fram vegna eldis í Patreksfirði, Tálknafirði og Dýrafirði.
Skv. umfjöllun Fréttablaðsins:
„Hafrannsóknastofnun er mjög harðorð í umsögn sinni til Skipulagsstofnunar og telur að notkunin ætti að krefjast umhverfismats. Varan flokkist í áhættuflokkana H400 og H410 sem þýði að varan sé mjög eitruð lífi í vatni og sjó og með langvarandi áhrifum. 80 prósent af koparnum losist út í umhverfið.
„Þó svo að kopar safnist ekki upp í lífkeðjum þá virkar hann staðbundið sem eitur á til dæmis þörunga og ýmsa hryggleysingja með því að hafa neikvæð áhrif á lífeðlisfræðilega ferla. Kopar virkar sem ásætuvörn einmitt vegna þess að hann er eitraður þessum lífverum,“ segir í umsögninni.
Tvær af kærunum koma frá náttúruverndarsamtökunum Laxinn lifi og ein frá einstaklingi.
„Þetta efni hverfur af nótunum og sest á botninn. Þetta er efnisem eyðist aldrei og er mjög skaðlegt fyrir lífríkið,“ segir Óttar Yngvason, stjórnarmaður í Laxinn lifi. „Það safnast upp og eitrar botninn.“