„Við viljum ekki hugsa þá hugsun til enda ef laxeldi hér fer sömu leið og í nágrannalöndum okkar, þar sem vinsælar stangveiðiár hafa til dæmis orðið fyrir óafturkræfum áhrifum vegna erfðablöndunar eldisfisks við villta laxastofna. Of hátt hlutfall af lífsafkomu okkar kemur af stangveiðinni til þess að við getum látið það sem því ógnar óáreitt,“ segir Guðrún Sigurjónsdóttir bóndi á Glitstöðum í Norðurárdal í grein sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í dag:
„Vísindamenn hafa alls ekki haldið því fram að sjókvíaeldi sé óhætt eins og Benedikt Bóas sagði í Bakþönkum sínum. Þvert á móti. Til dæmis liggur fyrir að vísindamenn á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins hafa sagt að sjókvíaeldi sé ein helsta ógnin sem steðjar að villtum laxastofnum. Staðreyndin er sú að mikil áhætta fylgir laxeldi í sjó og hafa vísindamenn í því sambandi bent á hættuna á erfðablönduninni en líka á að sjókvíaeldi fylgir mengun, sjúkdómahætta, lúsafaraldur og notkun eiturefna og sýklalyfja.
Því miður hefur hér á Íslandi ekki verið staðið almennilega að því að móta þessa nýju atvinnugrein. Við megum ekki endurtaka mistök annarra þjóða. Sú aðferð að ala lax í sjókvíum er ógn við náttúruna. Okkur ber að varðveita lífríkið og umgangast auðlindirnar þannig að þær nýtist okkur og afkomendum okkar um ókomin ár.
Laxeldið upp á land – og þá getum við öll verið stolt af okkar afurðum.“