Þetta er grein sem við rifjum reglulega upp.
Kjetil Hindar er einn af fremstu vísindamönnum Noregs. Hann útskýrir á einfaldan og auðskiljanlegan hátt skaðann af erfðablöndun eldislax við villta laxastofna.
Kjetil kom fyrir atvinnuveganefnd Alþingis á dögunum í tilefni af hinu hættulega lagareldisfrumvarpi VG og fór meðal annars yfir þessi fræði.
Rannsóknir mínar hafa verið nefndar sem sönnun þess að hrygning strokulaxa úr sjókvíaeldi í ám þurfi að standa yfir í áratugi svo raunveruleg hætta skapist á erfðablöndun milli eldislax og villts lax. Þetta er röng túlkun á rannsóknum á atlantshafslaxi í Noregi og öðrum löndum.
Stýrðar tilraunir í náttúrulegum árkerfum í Noregi og Írlandi sýna að áhrif eldislaxa á villta stofna geta komið fram samstundis. Áhrifin geta falið í sér erfðafræðilegar og lífsögulegar breytingar og samdrátt í fjölgun viðkomandi stofna. Þetta gerist þrátt fyrir að hver eldislax hafi takmarkaða hæfileika til að komast af í náttúrunni.
Í erfðafræðilegri greiningu á um 150 villtum laxastofnum í Noregi (um þrír fjórðu villtra stofna landsins) sýndi helmingur stofna afgerandi erfðafræðilegar breytingar vegna hrygningar strokufisks úr eldi. Enn fremur sýndu rannsóknir á meira en 4.000 fullorðnum villtum löxum úr 62 ám, að erfðaþættir úr eldisfiski höfðu valdið breytingum á mikilvægum eiginleikum villts lax á borð við hvenær fiskurinn verður kynþroska og hversu hratt hann vex.
Meðal niðurstaða sérfræðingahóps sem var skipaður af Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) árið 2016 var að: „Umtalsverð fækkun þarf að verða á strokufiski úr laxeldi, eða hefja þarf eldi á ófrjóum fiski, til að lágmarka áhrifin á náttúrulega stofna.“
Ef eldi í sjó við Ísland á að byggjast á stofni af norskum eldislaxi, myndi fyllstu aðgátar vera gætt ef notaður væri ófrjór fiskur í eldinu. Annar möguleiki er búnaður þar sem tryggt er að fiskur sleppur ekki. Ástæðan er sú að íslenskur lax er með aðra erfðafræðilega sögu en lax frá Noregi.
Rétt er að geta þess að norsk yfirvöld hafa nýlega bannað innflutning á frjóum eldislaxi til Noregs nema hægt sé að sýna fram á að laxinn sé af hreinum erfðafræðilegum norskum uppruna.