Í matsskýrslu Fiskeldis Austfjarða vegna mögulegs sjókvíaeldis í Stöðvarfirði fyrir austan kristallast afstaða sem sýnir af hverju þessi starfsemi er svo háskaleg íslensku lífríki.
Í skýrslunni hafnar fyrirtækið því að villtum laxastofnum stafi veruleg hætta af sleppilaxi úr kvíunum.
Er þar fyrirtækið ósammála helstu sérfræðingum á þessu sviði, þar á meðal Hafrannsóknastofnun Íslands, hinu óháða norska vísindaráði sem segir sjókvíaeldi mestu manngerða ógn villtra laxastofna þar í landi og doktor Kjetil Hindar, helsta sérfræðingi Náttúrufræðistofnunar Noregs (Nina) sem sá sig tilneyddan árið 2018 til að senda grein til íslenskra fjölmiðla til að leiðrétta sambærilega útursnúninga lobbíista á vegum sjókvíaeldisfyrirtækjanna hér á landi.
Í grein Kjetils kemur þetta meðal annars fram:
„Rannsóknir mínar hafa verið nefndar sem sönnun þess að hrygning strokulaxa úr sjókvíaeldi í ám þurfi að standa yfir í áratugi svo raunveruleg hætta skapist á erfðablöndun milli eldislax og villts lax. Þetta er röng túlkun á rannsóknum á atlantshafslaxi í Noregi og öðrum löndum.
Stýrðar tilraunir í náttúrulegum árkerfum í Noregi og Írlandi sýna að áhrif eldislaxa á villta stofna geta komið fram samstundis. Áhrifin geta falið í sér erfðafræðilegar og lífsögulegar breytingar og samdrátt í fjölgun viðkomandi stofna. Þetta gerist þrátt fyrir að hver eldislax hafi takmarkaða hæfileika til að komast af í náttúrunni.“