Ábyrgð Hafrannsóknastofnunar og starfsmanna stofnunarinnar er mikil. Þar er ákveðið hversu umfang sjókvíaeldis á laxi við landið á að vera mikið.

Með svokölluðu áhættumati erfðablöndunar er reynt að meta hversu mörg tonn er leyfilegt að hafa i sjókvíum án þess að villtir nytjastofnar skaðist.

Síðasta áhættumat var gefið út vorið 2020. Var framleiðsluþakið þar sett við 106.500 tonn. Ljóst er að þetta reiknimódel Hafró er kolfallið. Þó framleiðslan sé enn vel innan við helmingur af framleiðsluþakinu þá hefur verið staðfest útbreidd erfðablöndun í viltum laxastofnum.

Með öðrum orðum, alvarleg mistök voru gerð við útgáfu síðasta áhættumats. Engin spurning er um að í næsta mati, sem verður gefið út fljótlega, hlýtur framleiðslumagnið að lækka verulega.

RÚV fjallar um skýrslu Hafrannsóknastofnunar:

Óvíst er hversu mikill árangur varð af mótvægisaðgerðum Hafrannsóknarstofnunnar til að stemma stigu við hrygningu eldislaxa sem höfðu strokið. Í skýrslunni segir að tíðni stroka úr sjókvíaeldi hér á landi og sá fjöldi strokulaxa sem gengu í fyrra hafi verið meiri en gert hafi verið ráð fyrir.

Stefnt er að því að veiða vorgömul seiði í haust til að fá mat á hrygningu þeirra og hversu mikið þeir hafa blandast villtum stofnum.

Vitað er að laxar frá öðrum löndum sækja á fæðuslóðir hér við land og því er mögulegt að villtir laxar, eða eldislaxar frá öðrum löndum, gangi í ár hér á landi. …

Í skýrslunni kemur fram að samhliða auknu eldi á laxi í sjókvíum fylgi áhættur sem taldar eru geta ógnað stöðu villtra laxastofna hér á landi, t.d. erfðablöndun.

Árið 2023 var mjög frábrugðið fyrri árum og einkenndist af stroki laxa úr kví í Kvígindisdal í Patreksfirði síðla ágústmánaðar. Áætlaður fjöldi laxa í því stroki var um 3500 fiskar.

Fljótlega eftir strokið fór að bera á göngu eldislaxa í ár en kynþroska laxar leita í ár til að hrygna og þannig ljúka sínum lífsferli. …