Talsmaður okkar hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum svarar skrifum sem hafa birst í BB undanfarna daga.

Greinin birtist á fréttamiðlinum Bæjarins Besta

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með hversu framandleg hugmynd það virðist vera fyrir ritstjóra BB að fólk beri ábyrgð á verkum sínum.

Í tilefni af því að Matvælastofnun (MAST) ákvað í júní að gefa út rekstrarleyfi fyrir þrjú sjókvíaeldissvæði í Ísafjarðardjúpi í andstöðu við afgerandi mat Samgöngustofu um að óheimilt væri að veita leyfi á tveimur eldiissvæðanna með tilliti til siglingaöryggis, var bent á eftirfarandi í fréttaviðtali við Vísi síðustu viku:

„Full ástæða er til að velta fyrir sér persónulegri ábyrgð starfsmanna MAST, sem tóku þessa ákvörðun og skrifa undir leyfið, ef slys verða vegna staðsetninga sjókvíanna á siglingaleiðum þar sem Samgöngustofa segir að þær megi ekki vera. Stofnanir hafa ekki sjálfstæðan vilja. Það er fólk sem stýrir þeim og hlýtur að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingum verka sinna.“

Ofbeldi og hótanir?
Um þessa einföldu ábendingu skrifaði ritstjóri BB pistil undir fyrirsögninni „IWF: haft í hótunum við embættismenn“.

Orðin hótun og ofbeldi koma níu sinnum fyrir í stuttri grein ritstjórans auk þess sem hann telur að með ábendingunni sé „vegið að“ og „ráðist að“ embættismönnum.

Líklega þarf ritsjórinn að fá sér orðabók og fletta upp merkingu orðanna „hótun“ og „ofbeldi“. Notkun hans á þeim bendir til þess að næmni hans fyrir blæbrigðum íslenskrar tungu gæti verið betri.

Hitt er þó athyglisverðara að honum finnst þessar vangaveltur, um að fólk eigi að bera ábyrgð á því sem það gerir í vinnu sinni, svona fráleitar.

Ástæða þótti árið 2007 til að skerpa á refsiábyrgð starfsmanna félaga í samkeppnislögum. Fram að lagabreytingunum var meginreglan sú að félög bæru ábyrgð á samráðsbrotum en ekki þeir sem tóku ákvörðun um brotin. Þetta þótti óviðunandi. Eftir breytingarnar getur sá sem ber ábyrgð á samráðsbrotum átt von á sektum eða þurfa að sitja í fangelsi allt að sex árum.

Skaðabótaábyrgð starfsmanna er samkvæmt lögum mismunandi eftir því hvaða störfum þeir sinna, hver staða þeirra og hvert er rekstrarform viðkomandi starfsemi. Meginreglan í skaðabótalögunum er að starfsmaður ber ekki ábyrgð á því tjóni sem hann veldur. Ábyrgð verður hins vegar felld á starfsmann hafi hann sýnt af sér stórfellt gáleysi eða ásetning sem veldur tjóni.

Að lögin séu svona særir líklega ekki réttlætiskennd margra annarra en ritstjóra BB.

Ítrekuð brot
Fullkomlega eðlilegt er að velta fyrir sér hver ábyrgð þeirra hjá MAST er ef slys verða vegna staðsetningu sjókvía á svæðum þar sem þær ógna siglingaöryggi samkvæmt Samgöngustofu. Í því felast hvorki „hótanir“ né „ofbeldi“.

En léttúð starfsfólks MAST gagnvart siglingaöryggi er ekki eina tilefnið til að velta fyrir sér hvernig stjórnendur stofnunarinnar kjósa að haga störfum hennar.

Í núgildandi lögum um fiskeldi er til dæmis kveðið skýrt á um að Matvælastofnun er heimilt að afturkalla rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi „þegar eldisfiskur sleppur ítrekað frá fiskeldisstöð“ (sjá 16. gr. Afturköllun rekstrarleyfis}.

Af einhverjum sökum hafa stjórnendur MAST ekki nýtt þessa heimild stofnunarinnar. Hafa þó eldislaxar sloppið ítrekað úr sjókvíum við landið.

Óumdeilt er að erfðablöndun við eldislax skaðar villta laxastofna. Sinnuleysi starfsfólks MAST við að stöðva rekstur sjókvíeldisfyrirtækja sem láta eldisfisk sleppa ítrekað úr sjókvíum hefur nú þegar valdið þeim tjóni sem hafa hlunnindi af sjálfbærum laxveiðum.

Mikill kostnaður hefur fallið til við að hreinsa, einsog mögulegt var, eldislax sem gekk í ár víða um land í fyrra. Enn er óvíst hversu umfangsmikill skaðinn er af staðfestri erfðablöndun.

Hlutverk Hafrannsóknastofnunar
Í þessu samhengi þarf ekki aðeins að skoða hlutverk MAST. Ábyrgð Hafrannsóknastofnunar og starfsmanna hennar er einnig mikil.

Hafrannsóknastofnun hefur það hlutverk að ákveða hversu mikið umfang sjókvíaeldis á laxi við landið á að vera.Með svokölluðu áhættumati erfðablöndunar stofnunarinnar er reynt að meta hversu mörg tonn er leyfilegt að hafa i sjókvíum án þess að villtir nytjastofnar skaðist.

Síðasta áhættumatið var gefið út vorið 2020. Var framleiðsluþakið þá sett við 106.500 tonn. Ljóst er að þetta reiknimódel Hafrannsóknastofnunar er kolfallið. Þó að framleiðslan sé enn vel innan við helmingur af framleiðsluþakinu hefur útbreidd erfðablöndun verið staðfest í villtum laxastofnum Íslands og á síðasta ári var ágengnin (hversu mikið af eldislaxi gengur í veiðiár) langt yfir mörkum matsins. Þetta bendir til að alvarleg mistök hafi verið gerð við útgáfu síðasta áhættumats.

Sérstakt rannsóknarefni er að skoða hvað brást í þeirri vinnu starfsmanna stofnunarinnar.

Auðvitað hljóta þær opinberu stofnanir og starfsfólk þeirra, sem eiga lögum samkvæmt að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna, að bera ábyrgð á þessari stöðu. Og um það þarf að ræða.

 

Af hverju finnst ritstjóra BB framandleg hugmynd að fólk beri ábyrgð á verkum sínum?