Í ljósi umræðu um mögulega atvinnuuppbyggingu í fiskeldi er mikilvægt að rifja upp þessi varnarorð Magnúsar Skúlasonar bónda í Norðtungu.
Í greininni segir Magnús meðal annars:
„Því verður ekki trúað að óreyndu að fólk vilji skapa störf í sínu héraði með því að eyða þeim annars staðar á landsbyggðinni og það með iðnaðareldi sem er bein atlaga að náttúru og lífríki Íslands. Það má aldrei gleyma því að tekjur af laxveiði eru mikilvæg undirstaða fyrir búsetu í sveitum Íslands.“
Þessu til viðbótar er rétt að ítreka enn og aftur að þessi barátta beinist gegn þeirri aðferð að ala frjóan fisk í opnum sjókvíum. Sú frumstæða aðferð er háskaleg umhverfinu vegna gríðarlegrar mengunar sem streymir í sjóinn og er hættuleg villtum íslenskum laxastofnum vegna fiska sem sleppa en líka vegna sjúkdóma og lúsaplágu sem grasserar í kvíunum. Eldi á landi og í öruggum lokuðum kvíum leysir þessi vandamál. Þar er framtíð fiskeldis.