Svona er þetta. Tap fyrir fyrirtækið sjálft, tap fyrir umhverfið, tap fyrir lífríkið og tap fyrir bændur í sveitum landsins sem hafa reitt sig á hlunnindi af lax- og silungsveiðum kynslóð eftir kynslóð.
Grunnur Arnarlax er frá 2007 þegar Fjarðalax var stofnað um sjókvíaeldi á laxi en félagið sameinaðist síðar Arnarlaxi. Fyrirtækið hefur á þessum sautján árum aðeins einu sinni greitt tekjuskatt á Íslandi, og það smávægilegan.
Það sem forstjóri Arnarlax kallar í fréttatilkynningu „líffræðilegar áskoranir“ er fjöldadauði eldislaxa í sjókvíum félagsins en þeir hafa haldið áfram að stráfalla í sjókvíum félagsins á þessu ári eftir hryllingsárið í fyrra.
Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu. Þjóðin veit það. Það er kominn tími til að stjórnmálafólkið, sem vill setjast á þing, átti sig líka.
Í frétt Morgunblaðsins segir m.a.:
Rekstur fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax tekst nú á við háan kostnað og litla framleiðslu. Hefur velta félagsins dregist saman um tæp 67% eða úr 41,9 milljónum evra í 14,3 milljónir evra, það er rúmlega sex milljörðum íslenskra króna í um tvo miljarða íslenskra króna. …
Samdráttinn er sagður stafa af lítilli framleiðslu og áframhaldandi líffræðilegum áskorunum frá því fyrr á árinu, sem leiddi til einskiptiskostnaðar upp á 0,4 milljónir evra. Rekstrarniðurstaða á hvert framleitt kíló af laxi var neikvæð um 1,71 evru á þriðja ársfjórðungi, en ef leiðrétt fyrir einskiptiskostnaðinn var hún neikvæð um 1,46 evru.
Aðeins 1.750 tonnum var slátrað úr sjókvíum félagsins á Vestfjörðum á þriðja ársfjórðungi, en rúm fjögur þúsund tonnum var slátrað á sama tímabili í fyrra. „Sláturmagn hefur aukist frá því sem var á fyrri ársfjórðungi, en hélst í lágmarki þar sem samstæðan lagði áherslu á líffrílega uppbyggingu,“ segir í tilkynningu félagsins. …
„Á þriðja ársfjórðungi náði Icelandic Salmon stöðugleika í kjölfar líffræðilegra áskorana frá síðasta vetri og vori. Sláturmagn hélst lítið sem hafði áhrif á ársfjórðungsuppgjör. Hins vegar hefur áhersla samstæðunnar á vöxt lífmassa byggt upp traustan grunn fyrir bata og framtíðarvöxt,“ segir í tilkynningunni.