Slátrun er nú hafin á eldislaxi upp úr þessari lokuðu sjókví sem er í Harðangursfirði á vesturströnd Noregs. Einsog sjá má á myndinni er aðeins örlítill hluti hennar sjáanlegur fyrir ofan yfirborð sjávar.

Myndin er úr grein sem birtist í The Times í vikunni (áskriftar krafist).

Laxinn sem kemur úr kvínni er miklu hraustari en sá sem er í sjókvíunum. Afföllin (dauði eldislaxanna) í þessari kví eru minni en 2%. Dauðinn í sjókvíunum hér við land var 23,5% í fyrra, eða 12 sinnum meiri.

Í opnu sjókvíaeldi streymir óhindrað og óhreinsað í gegnum netapokana:

  • fiskaskítur
  • fóðurleifar
  • örplast
  • skordýraeitur
  • lyf
  • þungmálmar
  • sníkjudýr
  • sjúkdómsvaldandi bakteríur og veirur

Og reglulega rofna netin þannig að mikið af fiski sleppur með ómældum skaða fyrir villta laxastofna.

Tæknin til að gera betur blasir við: Landeldi og lokaðar kvíar. Við Íslendingar erum í dauðafæri að koma laxeldi í réttan farveg.

Sjókvíaeldi í opnum netapokum er úrelt tækni. Skaðsemi hennar er öllum ljós.

Eina hindrunin fyrir því að sjókvíaeldi sé hætt er að viðskiptamódelið fær af hálfu löggjafans að hvíla á þjáningu og miklum dauða eldisdýranna, og spjöllum á lífríki og náttúrunni.

Við getum engum öðrum um kennt en okkur sjálfum ef við ætlum að kjósa fólk á þing sem vill halda áfram að setja opnar sjókvíar í sjó þrátt fyrir skaðsemi þeirra og að önnur tækni er nú þegar til staðar.