Í nýjustu skoðanakönnun Gallups kemur fram að fylgi Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi féll um fimm prósentustig á hálfum mánuði milli kannana, úr tæpum 15 prósentum í tæp tíu prósent. Hvergi á landinu er minni stuðningur við flokkinn segir í frétt RÚV um könnunina frá því í gær.

Þetta eru merkileg tíðindi. Hvað gerðist á milli þess að Gallup kannaði hug kjósenda í Norðvesturkjördæmi í október og svo aftur fyrri hluta nóvembers?
Eitt af því sem við vitum er að heimildarmyndin Árnar þagna var sýnd fyrir troðfullum sal í Borgarnesi þann 7. nóvember.

Uppistaða gesta voru landeigendur og bændur úr Borgarfirði þar sem hlunnindi af sjálfbærum laxveiðum eru ein meginstoð tilveru margra fjölskyldna. Í umræðum eftir myndina átti frambjóðandi Sjálfstæðisflokks í miklum vandræðum með að útskýra hvernig flokkur hans ætlar að tryggja að ekki fari eins á Íslandi og í Noregi þar sem Umhverfisstofnun landsins lokaði 33 ám í sumar fyrir veiði vegna skaðans sem sjókvíaeldi á laxi hefur valdið á norsku laxastofnum.

Norðvesturkjördæmi er víðfeðmt. Það nær frá Hvalfirði á Vesturlandi til Tröllaskaga á Norðurlandi. Íbúar eru um 32.000. Þar af búa um 7.000 manns á Vestfjörðum en 25.000 í þeim héruðum þar sem villti laxinn hefur átt sín óðul í ám löngu áður en maðurinn nam land á Íslandi.

Mikilvægi sjálfbæra laxveiða fyrir bændur og landeigendur eru hvergi meiri á Íslandi en á Vesturlandi og norðvesturlandi við Húnaflóa.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins og frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi að fylgi hans hefur dregist þar svona saman. Áður hafði sá þingmaður flokksins, sem hefur svotil eingöngu komið fram sem talsmaður sjókvíaeldisiðnaðarins en látið sér aðra hagsmuni í kjördæminu í léttu rúmi liggja, goldið fullkomið afhroð þegar valið var á lista.

Um 22.000 manns eru á kjörskrá í kjördæminu, þar af búa um 78 prósent utan Vestfjarða.

Hvorki á fundinum fjölmenna í Borgarnesi í síðustu viku, né í umræðum eftir sýningu á Arnar þagna á Blönduósi í þessari viku, var með nokkru móti hægt að skilja frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á þá leið að hagsmunir bænda í sveitum kjördæmisins yrðu varðir fyrir frekari skaða en nú þegar er orðinn af völdum sjókvíeldisiðnaðarins.

Erfðablöndun við eldislax var árið 2021 komin í 11 prósent í villta laxastofninum í Hrútafjarðará. Hlutfallið er örugglega mun hærra nú.

Hefur Sjálfstæðísflokkurinn misst algjörlega tengsl við lífsbaráttu í sveitum og mikilvægi þess að vernda afkomu þeirra sem nýta náttúruna og lífríkið með sjálfbærum hætti?

Hvenær ákváðu almennir flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum að gæta frekar hagsmuna stóriðjufyrirtæki sem eru í meirihluta í norskri eigu og borga ekki einu sinni tekjuskatt á Íslandi?

Sama má því miður segja um Framsóknarflokkinn en fulltrúar hans á fundunum í Borgarnesi og Blönduósi voru á báðum stöðum miklu fremur á bandi sjókvíaeldisiðnaðarins en heimafólks í þessum héruðum.

Myndin sem hér fylgir sýnir norska froskkafara með eldislaxa sem þeir fjarlægðu úr einum hyl Hrútafjarðarár í fyrra. Eldislaxarnir komu 320 kílómetra leið úr sjókví Arctic Fish í Patreksfirði og voru aðeins brot af því sem gekk í ána.