Hvað á formaður sjálfstæðisflokksins við þegar hann segir að „eldisgreinar þurfi stöðugleika“?
Fyrir liggur að sjókvíaeldi á laxi hefur vaxið svo hratt á undanförnum áratug að það er langt umfram getu stofnana ríkisins að veita því það aðhald og eftirlit sem nauðsynlegt er.
Þetta kom meðal annars fram í skýrslu Ríkisendurskoðanda sem kom út í fyrra og bókstaflega allir tóku undir, þar á meðal sjókvíaeldisiðnaðurinn sjálfur og fulltrúar allra flokka á þingi.
Fyrir liggur líka að sjókvíeldisfyrirtækin hafa sýnt í verki að þau ráða ekki við starfsemina í núverandi mynd:
- Fiskur hefur sloppið í stórum stíl, gengið í ár landsins og valdið þar erfðablöndun sem átti ekki að geta gerst samkvæmt mati Hafgfrannsóknastofnunar.
- Lúsasmit og sjúkdómar hafa sprengt alla skala, innlenda og alþjóðlega.
- Dauði eldislaxanna hefur verið svo hrikalegur að erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um hörmungarnar. „Sea-lice outbreak on Icelandic salmon farm a ‘welfare disaster’, footage shows“ var meðal annars fyrirsögn í The Guardian. Þessi rekstur er dýravelferðarmartröð af stærðargráðu sem við höfum ekki séð áður á Íslandi.
- Fyrirtækin halda áfram að losa beint í hafið: fiskaskít, fóðurleifar, örplast, þungmálma og lyf og skordýraeitur vegna lúsameðhöndlunar.
Er þetta stöðugleiki sem formaður Sjálfstæðisflokksins vill tryggja?
Frá því þessi bylgja sjókvíeldis hófst fyrir um átján árum hefur aðeins eitt eldisfyrirtækjanna greitt tekjuskatt á Íslandi og það í eitt skipti.
Er það stöðugleikinn sem formaður Sjálfstæðisflokksins vill tryggja?
Arctic Fish, sem lét þúsundir eldislaxa sleppa úr sjókví í Patreksfirði með þeim afleiðingum að þeir gengur í ár um allt land, neitar að borga eigendum ánna fyrir útlagðan kostnað við að hreinsa árnar sínar af eldislaxi til að reyna að lágmarka skaðann af þessu mesta mengunarslysi seinni tíma á Íslandi.
Er það stöðugleikinn sem formaður Sjálfstæðisflokksins vill tryggja?
Í sumar lét norska Umhverfisstofnunin loka 33 ám í Noregi fyrir laxveiði vegna áhrifa loftlagsbreytinga og sjókvíaeldis á norska laxastofna. Var þar fótunum kippt á einu augnabliki undan tilveru fjölskyldna sem hafa reitt sig á þessi hlunnindi kynslóð eftir kynslóð í sveitum Noregs.
Vill formaður Sjálfstæðisflokksins tryggja sjókvíeldisfyrirtækjunum hér stöðugleika til að halda svo á rekstrinum að eins fari hér?
Við þurfum útskýringar á því hvað formaður Sjálfstæðisflokkurinn á við með orðum sínum um stöðuleika fyrir eldisgreinarnar.
Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir Bjarna:
„Á meðan að starfsstjórn situr er ekki verið að vinna stefnumótandi vinnu og þessi frumvörp verða ekki lögð fram af starfsstjórn,“ Bjarni Benediktsson forsætisráðherra inntur álits á stöðu tveggja stórra stefnumarkandi frumvarpa fráfarandi ríkisstjórnar um annars vegar heildarendurskoðun laga um fiskveiðistjórnunina og hins vegar svokallað lagareldisfrumvarp.
…
„Lagareldið hefur gríðarlega möguleika á að auka verðmætasköpun en afar mikilvægt er að stöðugleiki og fyrirsjáanleiki verði til í greininni svo að fyrirtækin geti farið í fjárfestingar og geri ráðstafanir í starfsemi sinni. Það er því gríðarlega mikilvægt að slíkt frumvarp verði klárað sem fyrst að loknum kosningum,“ útskýrir hann.
…
„Í tíð Svandísar Svavarsdóttur í matvælaráðuneyti var unnin stefnumótun sem fékk talsverða gagnrýni og fór ekki fyrir þingið. Í haust voru svo lögð fram frumvörp sem ekki var mælt fyrir. Ég tel mikilvægt að frumvörpin verði skoðuð út frá þeim sjónarmiðum fyrst og fremst að við gætum að sjálfbærni auðlindanna og stöðugum og sanngjörnum regluramma fyrir fyrirtækin sem stunda veiðar.“